Nú er komin fram þingsályktunartillaga á Alþingi sem líkleg er til að gefa ferðamönnum tækifæri til að fara í róður á strandveiðibát. Upplifa sjóferðina og það sem fram fer. Flutningsmenn tillögunnar eru 6 þingmenn Sjálfstæðisflokksins, fyrsti flutningsmaður er Guðlaugur Þór Þórðarson.
Vakin er athygli á þessu á vef Landssambands smábátaeigenda. Þar segir ennfremur:
„Það hefur ekki farið fram hjá strandveiðikörlum hversu mjög erlendir ferðamenn sækja eftir nærveru þeirra. Oft hópur á bryggjunni að horfa á þegar lagt er að. Skyggnst niður í bátinn og andköf tekin og þeirri spurningu beint til sjómannsins: Veiddirðu þetta allt einn?
Löndun hafin og túristarnir hópast að til að sjá fiskinn, geislandi af ferskleika baðaður í ís. Spurt er hvort ekki sé hægt að kaupa einn fisk. Jú - ekki málið - viðskiptin fara fram. Dæmi um að greitt hafi verið 5.000 krónur fyrir einn fisk. En þá fylgdi með góð saga af róðrinum sem töfraði viðskiptavininn upp úr skónum.“
Sjá nánar á vef LS.