Veiðst hefur 21 túnfiskur á makrílveiðum í grænlensku lögsögunni, samkvæmt upplýsingum frá Grænlandi. Þetta þykja auðvitað mikil tíðindi. Skipið Tuugaalik hefur veitt alla fiskana, en það er í eigu dótturfyrirtækis Royal Greenland.

Sem kunnugt er hafa stöku túnfiskar slæðist í makrílveiðarfæri hér við land á undanförnum árum. Í nýjustu Fiskifréttum kemur fram að Beitir NK hafi fengið fjóra túnfiska í sumar á makrílveiðum en önnur íslensk makrílveiðiskip hafa ekki tilkynnt Fiskistofu um túnfiskafla það sem af er vertíðinni.

Alls hafa nú veiðst rúmlega 65.000 tonn af makríl í grænlensku lögsögunni, samkvæmt opinberum tölum.