Túnfiskveiðiráð Atlantshafs ákvað í gær lítilsháttar skerðingu á veiðikvóta bláuggatúnfisks fyrir næsta ár. Kvótinn í ár er 13.500 tonn en verður 12.900 tonn á næsta ári.

Fulltrúar frá 48 ríkjum sátu fundinn í París. Japanski fulltrúinn sagði að í reynd verði veiðin næsta ár um 11 þúsund tonn sem sé mikil skerðing.

Umhverfissamtök segja að túnfiskurinn í Atlantshafi sé í útrýmingarhættu. Stofninn hafi minnkað um 80% frá því á 8. áratug síðustu aldar. Frakkar, Ítalir og Spánverjar veiða mest af honum en megnið af aflanum er selt til Japans.

Þetta kemur fram á fréttavef RUV. Því má bæta við að Íslendingar eiga lítilsháttar hlut í túnfiskkvótanum, kringum 50 tonn, en hafa ekki nýtt hann á síðustu árum ef frá er talið eitt skipti þegar hann var veiddur í Miðjarðarhafi á vegum útgerðar Eyborgar EA.