Nýlokið er fundi Alþjóðatúnfiskráðsins (ICCAT), sem hefur með veiðistjórn á bláuggatúnfiski í Atlantshafi að gera. Að fundinum loknum var tilkynnt að kvótar bláuggatúnfisks yrðu auknir á næsta ári og gert væri ráð fyrir frekari aukningu á árunum 2016 og 2017. Þetta eru góðar fréttir fyrir Íslendinga enda mun kvóti okkar væntanlega aukast í samræmi við þetta.
Heildarkvóti bláuggatúnfisks í austanverðu Atlantshafi verður aukinn um 20% á næsta ári og verður 15.821 tonn. Kvótinn í Vestur-Atlantshafi verður aukinn um 14% og verður 2.000 tonn. Samtals eru þetta því 17.821 tonn.
Þá er gert ráð fyrir að leyft verði að veiða alls 19.296 tonn á árinu 2016 og til bráðabirgða að kvótinn verði 23.155 tonn á árinu 2017 en sú ákvörðum verður endurskoðuð að loknu stofnmati sem fram fer árið 2016.
Að þessari ákvörðun stóðu fulltrúar yfir 50 fiskveiðiþjóða á fundi ICCAT í Genóa á Ítalíu.