Tugmilljóna tjón varð á togskipinu Bylgju VE þegar gámaskipið Tetuan sigldi utan í skipið um áttaleytið í morgun. Samkvæmt upplýsingum sem fengust á skrifstofu Vestmannaeyjahafnar, bilaði skiptingin í gámaskipinu með þessum afleiðingum en gámaskipið rakst einnig utan í bryggjuþil en þar urðu litlar skemmdir.

„Þetta er mikið tjón á skipinu, tugmilljóna tjón sýnist mér. Skipið er mikið dældað við og fyrir neðan sjólínu. Þilið í lestinni hefur gengið inn og sprungið út á millidekkinu en skemmdirnar ná einnig niður í vélarrímið,“ sagði Jóhann Þorvaldsson, yfirvélstjóri á Bylgju VE í samtali á vef Eyjafrétta.

Skipið var bundið við bryggju og átti ekki að halda til veiða á ný fyrr en í lok júní. „Við áttum þá að fara á makrílveiðar og klára svo þorskkvótann. Vonandi verður hægt að laga skipið fyrir þann tíma en það kemur í ljós. Nú er tryggingafélagið okkar komið með þetta í sínar hendur en þetta er mikið tjón,“ bætti hann við.