Opinber norsk stofnun sem fylgist með lögbrotum tengdum sjávarútvegi í Noregi telur að 1,7 milljarðar norskra króna eða jafnvirði 29 milljarða íslenskra króna hafi verið fluttir í skattaparadísir á árabilinu 2006-2011.

„Hér er um efnahagsglæpi að ræða,“ sagði Jöran Kallmyr ráðuneytisstjóri í norska dómsmálaráðuneytinu á ráðstefnu í Tromsö nýlega, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren. Umrædd stofnun heitir Fiskeriforvaltningens analysenettverk (FFA) og er samstarfsvettvangur norsku fiskistofunnar, strandgæslunnar, lögreglunnar, efnahagsbrotastofnunarinnar, skattstofunnar og tollstjóra. Tilgangurinn er að upplýsa og sporna gegn fiskveiðilagabrotum og annarri ólöglegri starfsemi tengdri sjávarútvegi.

„Fiskveiðiglæpir hafa þróast í að verða skipulögð glæpastarfsemi, bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi enda miklir efnahagslegir hagsmunir í spilinu,“ sagði ráðuneytisstjórinn. „Við sjáum að þessi lögbrot innan sjávarútvegsins líkjast í vaxandi mæli efnahagsbrotastarfsemi sem við þekkjum úr öðrum greinum atvinnulífsins.“