Veiðar á snjókrabba í Barentshafi gætu gefið aflaverðmæti upp á allt að 38 milljarða íslenskra króna (2,5 milljarða NOK) á ári í framtíðinni. Þetta kom fram á Fish-Tech ráðstefnunni í Álasundi í Noregi, sem norska rannsóknastofnunin SINTEF og rannsóknasjóður sjávarútvegs og fiskeldis (FHF) stóðu fyrir. Þessi áætlun miðast við að veidd verði á bilinu 50-150 þúsund tonn af snjókrabba á ári.
Frá þessu er skýrt á vef samtaka norskra útvegsmanna. Gangi þetta eftir yrðu snjókrabbaveiðar næstverðmætustu veiðar Norðmanna, næst á eftir þorskveiðum. Ekki eru mörg ár síðan farið var að gera út á snjókrabba í Barentshafi.
Í Fiskifréttum síðastliðið vor var frá því skýrt að um 20 skip væru komin á þessar veiðar, flest frá Eistlandi og Lettlandi en einnig frá Rússlandi og Noregi. Þá væru Færeyingar að búa sig undir þessa veiðar. Veiðarnar hafa aðallega farið fram í norðurhluta Smugunnar en stærstu hluti stofnsins heldur sig í rússneska hluta Barentshafs.
Snjókrabbinn er aðskotadýr í Barentshafi og helst talinn hafa borist þangað með kjölvatni skipa. Hann er þekkt tegund við Alaska, Kanada og Grænland.