Hægt er að auka gæði togaraþorsks verulega með því að halda honum lifandi um borð þangað til hann er slægður. Þetta er niðurstaða athugunar sem rannsóknastofnunin Nofima í Noregi og norska hafrannsóknastofnunin stóðu fyrir nýlega um borð í hafrannsóknaskipinu G.O Sars.

Bent er á að þegar trollpokinn er dreginn upp úr sjónum klemmist fiskurinn gjarnan og verður fyrir þrýstingi sem veldur honum skaða og stundum dauða. Síðan er honum sturtað niður í móttöku þar sem líður mislangur tími þar til hann sé slægður. Við þessa meðferð dregur úr gæðum hráefnisins.

Með því hins vegar að dæla fiskinum upp úr trollpokanum og geyma hann lifandi í tönkum um borð þangað til hægt er að taka hann til slægingar er unnt að viðhalda gæðum fisksins, að sögn rannsóknamanna. Fram kom í rannsókninni að 95% fisksins sem meðhöndlaður var með þessum hætti hélst lifandi eftir að hann kom um borð í skipið.

Frá þessu er skýrt í nýjustu Fiskifréttum.