Einhver mikilvægustu björgunartæki þjóðarinnar – björgunarskip Landsbjargar - eru komin til ára sinna og endurnýjun þeirra hefur verið aðkallandi um langt árabil. Viðbótarfé til uppbyggingar fer allt í viðhald. Ný skip krefjast allt að tveggja milljarða króna fjárfestingar.
„Það er hálf hjákátlegt en Íslendingar hafa í gegn um tíðina verið nokkurs konar þriðja heims ríki þegar kemur að rekstri björgunarskipa og -báta. Oftar en ekki er notast við björgunarför sem erlend systursamtök okkar hafa hætt að nota og endurnýjað með nýrri og öflugri bátum,“ sagði Sigurður R. Viðarsson, verkefnastjóri sjóbjörgunarmála hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, á málstofu um öryggismál sjómanna á Sjávarútvegsráðstefnunni 2017, sem er nýafstaðin.
„Skipin hafa þó reynst afar vel hér við land og hafa komið mörgum sjómönnum til aðstoðar og bjargar,“ bætti Sigurður við.
100 skip og bátar
Slysavarnafélagið Landsbjörg rekur í samstarfi við björgunarbátasjóði þrettán björgunarskip víðvegar um landið. Saman mynda þau keðju kring um Ísland sem gerir björgunarsveitunum kleift að ná til stórs hafsvæðis (A1), á fimm til sex klukkustundum.
Skipin eru öll mönnuð sjálfboðaliðum. Viðbragðstími björgunarskipanna er mismunandi eftir stöðum en algengt er að skipin séu fullmönnuð, tilbúin til brottfarar á 7 til 10 mínútum á hæsta forgangi.
Auk björgunarskipanna reka sveitirnar 27 hraðskreiða björgunarbáta og um 60 slöngubáta um allt land.
Sigurður sagði í erindi sínu að nær öll björgunarskipin voru keypt notuð frá Konunglega breska sjóbjörgunarfélaginu (RNLI) í Bretlandi. Fljótlega upp úr aldamótunum síðustu fór RNLI í miklar endurnýjanir á björgunarskipaflota sínum og framboð á notuðum björgunarskipum var mikið. Landsbjörg nýtti sér það og endurnýjaði flest öll sín gömlu skip og fjölgaði þeim jafnframt úr tíu í 14.
„Rekstur björgunarskipanna hefur gengið ágætlega og ekki hafa komið upp nein stóratvik sem ógnað hafa öryggi sæfarenda. En staðreyndin er sú að skipin er flest öll komin til ára sinna og þau elstu fagna 40 ára afmæli um þessar mundir. Þótt vélbúnaður og stjórnkerfi björgunarskipanna sé einfaldur þá fer töluverð vinna í að halda þeim gangandi. Æ oftar gerist það að erfitt reynist að fá varahluti sem kallar þá á að viðeigandi breytingar með tilheyrandi kostnaði,“ sagði Sigurður.
Allt í uppsafnað viðhald
Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, skrifaði árið 2013 undir samkomulag við Landsbjörgu um aukið fjármagn til viðhalds og endurbóta á björgunarskipum félagsins. Samkomulagið gildir til ársins 2021. Var það gert á grundvelli þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi í mars sama ár en fyrsti flutningsmaður hennar var Jón Gunnarsson, fyrrverandi forseti félagsins. Þá var markmið þingsályktunarinnar að tryggja að Landsbjörg gæti staðið fyrir eðlilegri og nauðsynlegri endurnýjun björgunarskipaflotans enda væru björgunarskip félagsins órjúfanlegur hluti af öryggiskerfi Íslands á leitar- og björgunarsvæði landsins. Jafnframt fól Alþingi innanríkisráðherra að kanna þörf og möguleika á að fá enn öflugri skip á tiltekna staði á landinu.
Þá var strax vitað að tvö til þrjú skip þurftu nauðsynlega á klössun að halda, meðal annars vélaskiptum. Með nýjum og öflugri vélum fengist meira rekstraröryggi ásamt því að rekstrarkostnaður mundi lækka umtalsvert. Búast mátti við að öll önnur skip í björgunarskipaflotanum þurfi jafnframt slíka klössun á næstu 10 árum, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu á þeim tíma. Þar segir jafnframt að tæki og búnaður að nokkru leyti var þá úreldur „en hröð þróun hefur verið í siglinga- og leiðsögutækjabúnaði síðustu ár og því nauðsynlegt að endurnýja hann. Skrokkur og yfirbygging skipanna eru í mjög góðu ástandi og talið hagkvæmt að fara í slíkar aðgerðir þar sem skipin endist þá a.m.k. í 15 ár til viðbótar. Kostnaður er talinn nema 20 til 30 milljónum króna á skip en nýsmíði á sambærilegu skipi er talin kosta 350–400 milljónir króna.“
Félagið hefur því nýtt fjármagnið að mestu leiti í uppsafnað viðhald en stórlega dróst úr fjármagni til reksturs björgunarskipanna eftir hrunið 2008, en undirbúningsvinna um framtíð björgunarskipanna hefur nú staðið yfir síðustu misseri hjá félaginu, sagði Sigurður.
Allt að tveir milljarðar
Í samráði við Landhelgisgæslu Íslands auk Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Landsambands smábátaeigenda var meðal annars unnin skýrsla um staðsetningu björgunarskipanna. Voru fengin gögn frá verkfræðistofunni Trackwell sem greindi skipaumferð mismunandi tegundir skipa, svo sem flutningaskipa, fiskiskipa og skemmtiferðaskipa.
Megin niðurstöður vinnuhópsins var sú að björgunarskip Landsbjargar eru vel staðsett með tilliti til skipaumferðar. Var það mat vinnuhópsins að þótt útköllum hafi fækkað síðustu ár sé enn full þörf á björgunarskipum hringinn í kring um landið sem geta brugðist skjótt við.
„Ísland er fiskveiðiþjóð og byggir afkomu sína að miklu leiti á sjósókn. Með stórauknum straumi ferðamanna til Íslands síðustu ár hafa einnig orðið til fyrirtæki sem byggja afkomu sína á siglingum með ferðamenn. Þá er Ísland að verða sífellt vinsælli viðkomustaður stórra skemmtiferðaskipa og hefur fjöldi farþega til íslenskra hafna nær tvöfaldast yfir fimm ára tímabil,“ sagði Sigurður en undirbúningsvinna félagsins hefur leitt í ljós að fátt er annað í stöðunni en nýsmíðar ef fara á út í endurnýjanir björgunarskipanna á annað borð. Kostnaður við slíka endurnýjun yrði 1,5 – 2 milljarðar króna á næstu 10-15 árum, ef af verður. Var þar tekið tilliti til samantektar annarrar verkfræðistofu, Navís, sem kannaði hvaða möguleikar eru í stöðunni, með tilliti til þeirra skipa sem systursamtök félagsins víðsvegar í Evrópu hafa látið smiða fyrir sig.
Á hæsta forgangi
Vinnuhópurinn telur að æskileg stærð björgunarskipa sé á bilinu tólf til sextán metrar að lengd, nái a.m.k. 30 hnúta siglingahraða og leggur áherslu á að rekstrarumhverfi björgunarskipa Landsbjargar verði tryggt til frambúðar.
Sigurður sagði jafnframt að sem betur fer hafi útköllum á sjó fækkað verulega en undanfarin ár hafa þau verið á bilinu 60 til 80 árlega. Langflest útköllin eru farin til aðstoðar vegna bilanna og vegna skipa og báta sem dottið hafa út úr tilkynningaskyldu. Um 20% útkalla eru á hæsta forgangi.
Sigurður sagði jafnframt, til viðbótar við mikilvægi þess að geta farið skjótt af stað til aðstoðar þeirra er í neyð lenda á sjó, að þá hafi átt sér stað ákveðin þróun undanfarin ár í þeim löndum sem við höfum borið okkur saman við. Þróun sem meðal annars er tilkomin vegna breyttra aðstæðna í samfélaginu.
„Sífellt færri sjálfboðaliðar í áhöfnum björgunarskipa hafa reynslu af störfum á sjó. Ísland er engin undantekning þar á. Þetta eru áskoranir sem blasa við þeim sem að sjálfboðaliðastarfi koma. Það hefur í för með aukin þjálfunarkostnað og þar af leiðandi þarf að taka mið að kröfum sjálfboðaliðanna,“ sagði Sigurður og bætti við að fyrir ekki svo mörgum árum síðan þótti mönnum ekkert tiltökumál að fara margra tíma ferðir. „En í dag í hinu hraða samfélagi þar sem keppt er um frítíma fólks, kallar nútíma samfélagið eftir þeim kröfum að ekki sé verið að eyða dýrmætum tíma í óþarfa. Því kalli hafa sjóbjörgunarsamtök víðsvegar svarað m.a. með auknum ganghraða skipanna.“
Allir leggist á eitt
Sigurður kastaði fram þeirri spurningu hvort Landsbjörg ætti eitt að bera ábyrgð á rekstri björgunarskipa hringinn í kring um landið. Hann sagði að í raun hefði félagið ekki burði til þess.
„Án aðkomu ríkisins, sjávarútvegsins, ferðaþjónustunnar, tryggingafélaga, fjármálastofnanna og almennings má vera nokkuð ljóst að lítil framþróun muni eiga stað hvað það varðar. Öll verðum við að leggjast á eitt til að tryggja öryggi sæfarenda sem best – einnar stærstu lífæðar landsins okkar,“ sagði Sigurður.