„Sjávarútvegurinn þarf að geta starfað eins og hver önnur atvinnugrein í friði fyrir pólitískum upphlaupum á fjögurra ára fresti,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra í viðtali í Tímariti Fiskifrétta sem kom út í síðustu viku. Hann dregur ekki dul á að óánægju gæti meðal almennings með fiskveiðistjórnunarkerfið og brýnt sé að ná víðtækari sátt um kerfið.
„Fulltrúar þjóðarinnar eru stjórnmálaflokkarnir og því tókum við umræðuna við þá um endurskoðun fiskveiðistjórnunarlaganna. Í fyrstu lotu virtust stjórnmálaflokkarnir vera tilbúnir til að standa að víðtækri sátt og þá var ekki langt milli manna, en þegar á hólminn var komið og nýtt frumvarp sá dagsins ljós treystu menn sér ekki upp úr skotgröfunum og sögðu: >> Það er betra fyrir minn flokk að halda þessum ágreiningi til streitu<<. Þess vegna ákvað ég að leggja málið til hliðar.“
Hversu miklu máli skiptir að fá lausn á málinu?
„Það skiptir mjög miklu máli fyrir alla að víðtækari sátt ríki um greinina en nú er. Ef þetta ástand ríkir áfram munu einhverjir stjórnmálaflokkar, þegar nær dregur kosningum, geta nýtt sér þetta ósætti til þess að afla sér fylgis með hugmyndum um breytingar á kerfinu sem ganga þvert á allar viðurkenndar hugmyndir um gott fiskveiðistjórnunarkerfi. Ég minni á að einn flokkur sem fer með himinskautum í skoðanakönnunum um þessar mundir hefur í raun mælt með sóknarmarkskerfi að hætti Færeyinga. En hvað er að gerast í Færeyjum? Það er nánast enginn bolfiskur eftir því sóknarmarkskerfið er búið að eyðileggja auðlindina. Svo til einu tegundirnar sem Færeyingar nýta eru uppsjávarstofnar sem eru flökkustofnar.“
Sjá nánar viðtal við ráðherrann í Tímariti Fiskifrétta um óvinsældir kvótakerfisins, veiðigjöld, byggðastyrki og fleira.