Allt útlit er fyrir það að veiðar á úthafskarfa á alþjóðlegu hafsvæði í Noregshafi stöðvist áður en heildarkvótanum, 19.500 tonnum, verður náð.

Þetta kemur fram á vef samtaka norskra útvegsmanna. Þar segir að miðað við 23. september hefðu veiðst alls 4.993 tonn. Rússar hefðu veitt 2.635 tonn og ESB-skip 1.956 tonn.

Aðeins tvö skip voru þá enn að veiðum, eitt frá ESB og annað frá Færeyjum.

Veiðar á úthafskarfa á þessum slóðum eru ólympiskar og hófust fyrir nokkrum árum. Fyrstu árin tóku íslensk skip þátt í þeim en hafa ekki stundað þær síðustu árin.