Sjö uppsjávarveiðiskip hafa stundað veiðar á gulldeplu nú eftir áramótin og hefur veiðin verið treg og farið rólega af stað eftir áramótin að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda á heimasíðu fyrirtækisins . Hann segir menn nú bíða spennta eftir niðurstöðum loðnuleitar á vegum Hafrannsóknastofnunar.

Tvö af skipum HB Granda, Faxi RE og Ingunn AK, fóru til veiða sl. laugardag en Lundey NS er í slipp í Reykjavík þar sem unnið er að hefðbundnu viðhaldi. Reiknað er með því að skipið geti farið til veiða á gulldeplu nk. föstudag.

Að sögn Vilhjálms fór sl. sunnudagur í leit að gulldeplu í veiðanlegu magni en sú leit bar ekki árangur fyrr en á mánudag. Þá gátu skipin verið að veiðum á meðan birtu naut en aflinn var samt ekki mikill eða um 70 til 100 tonn hjá hvoru skipi. Í gær voru aflabrögðin heldur skárri eða um 100 til 150 tonn eftir daginn. Hvort skip er því komið með ríflega 200 tonna afla eftir tvo daga á veiðum. Veiðisvæðið er á svipuðum slóðum og fyrir áramót eða í nágrenni Grindavíkurdýpis.

Leitað að loðnu

Hafrannsóknarskipin tvö, Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson, fóru til loðnuleitar í gær og segir Vilhjálmur að menn vonist til að skipin nái að fara eina umferð yfir það svæði sem helst er von til að loðna haldi sig á um þessar mundir. Sú yfirferð gæti tekið sex til sjö daga. Vilhjálmur bendir þó á að hafís sé nú á stóru svæði úti fyrir Vestfjörðum og gæti það haft áhrif á niðurstöður mælinga.

Þess má geta að á rekstraráætlun Hafrannsóknastofnunar var aðeins gert ráð fyrir því að Árni Friðriksson færi til loðnuleitar nú í byrjun ársins. Útgerðir uppsjávarveiðiskipanna tóku hins vegar þá ákvörðun að standa straum að kostnaði við loðnuleit Bjarna Sæmundssonar og þótti það vera vænlegri kostur en að senda veiðiskip í loðnuleitina með Árna Friðrikssyni.