Umhverfisstofnun hóf vöktun rusls á ströndum sumarið 2016, samkvæmt aðferðafræði og leiðbeiningum frá OSPAR, samnings um verndun Norðaustur-Atlantshafsins sem Ísland hefur staðfest. Plast og hlutir tengdir sjávarútvegi eru algengasta ruslið sem finnst við kerfisbundna vöktun stranda á Íslandi.

Til að fylgjast með þróun á magni og samsetningu þess rusls sem berst á strendur Íslands hefur Umhverfisstofnun valið ákveðin strandsvæði til reglulegrar vöktunar. Þar er allt rusl tínt og flokkað samkvæmt sérstakri aðferðafræði.

Sjö strandir vaktaðar

Ný vöktunarströnd á Austurlandi hefur bæst við og eru þær nú orðnar sjö talsins. Það er ströndin Ýsuhvammur í nágrenni Reyðarfjarðar og er sú eina á Austurlandi. Samið var við Náttúrustofu Austurlands um að vakta ströndina þrisvar sinnum á ári. Starfsmaður Umhverfisstofnunar aðstoðaði starfsmenn Náttúrustofunnar við fyrstu vöktunina.

Strandir í vöktun Umhverfistofnunar eru nú þessar: Surtsey, Bakkavík á Seltjarnarnesi, Búðavík á Snæfellsnesi, Rauðasandur, Rekavík bak Höfn á Hornströndum, Víkur á Skagaströnd og Ýsuhvammur. Við vaktanir á ströndum hefur plastrusl verið algengast og hlutir sem tengjast sjávarútvegi. Á þessu ári fannst óvenjumikið af klæðnaði í Bakkvík á Seltjarnarnesi.

Á hverri strönd fyrir fram afmarkað svæði vaktað. Tilgangur vöktunarinnar er að finna uppruna rusls á ströndum, hvaða flokkar rusls safnast mest fyrir, meta magn sem safnast fyrir yfir ákveðið tímabil og að fjarlægja ruslið. Með vöktuninni uppfyllir Ísland hluta af aðgerðaráætlun OSPAR, um að draga úr skaðsemi úrgangs í hafi og á ströndum.

Umhverfisstofnun sér í flestum tilfellum um framkvæmd vöktunarinnar með aðstoð viðkomandi sveitarfélags og/eða landeigenda.