Stjórn Byggðastofnunar hefur ákveðið að ganga til samninga við Toppfisk í Reykjavík um sölu á þeim eignum þrotabús Eyrarodda á Flateyri sem stofnunin á veð í, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Tvö tilboð bárust í allar eignirnar, eins og óskað var eftir í auglýsingu, en hitt tilboðið kom frá félagi sem tengist eigendum Lotnu sem nú reka fiskvinnslu í eignum þrotabúsins. Haft er eftir forstjóra Byggðastofnunar að stjórn hennar telji tilboð Toppfisks tryggja best hagsmuni stofnunarinnar og byggðarlagsins.
Toppfiskur er öflugt fiskvinnslufyrirtæki með aðalstarfsemi sína í Reykjavík en rekur einnig fiskvinnslu á Bakkafirði í eignum sem fyrirtækið keypti af Byggðastofnun á sínum tíma.