Venus NS landaði um 900 tonna afla á Vopnafirði um helgina en það er svipað magn og í veiðiferðinni á undan. Bergur Einarsson skipstjóri segir að það torveldi veiðina að töluvert af síld heldur sig á makrílslóðinni.

„Við vorum út af Lónsdjúpi og Papagrunni í síðasta túr og þar var töluvert af síld með makrílnum. Síldin hefur ekki að marki gengið upp á grunnin eða haldið sig við botn og það hefur gert okkur erfitt fyrir. Við höfum haldið okkur utan í grunnunum en því miður hefur það ekki dugað til við að forðast síldina.”

Að sögn Bergs hefur stefnan nú verið sett á miðlínuna milli Íslands og Færeyja suðaustur af landinu. Einhverjir Rússar hafa verið að veiðum norðan við línuna og nokkur íslensk skip fengu afla í nótt við miðlínuna.