Um miðjan dag í gær var staða norsku loðnuskipanna sú, að tólf voru búin með kvóta sinn við Ísland, níu voru  á miðunum og átta voru á leiðinni til Íslands frá Noregi. Þetta kemur fram í norska sjávarútvegsblaðinu Fiskeribladet/Fiskaren í dag.

Á vef norska síldarsölusamlagsins í dag kemur fram, að skipin séu búin að tilkynna 10.600 tonna afla af Íslandsmiðum. Verðið fyrir loðnuna er í kringum 1,70 norskar krónur kílóið, jafnvirði tæplega 36 íslenskra króna. Sagt er að loðnuverðið í ár sé eðlilegra en í fyrra þegar eftirspurnin hafi verið öfgakennd og verðið eftir því. Þá hafi besti kosturinn verið sá að landa loðnunni í bræðslu en nú gætu fleiri kostir verið í stöðunni.  Fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren að fyrirtækið Egersund Nor í Tromsö hafi þegar keypt loðnuafla til manneldisvinnslu og margir bíði spenntir að sjá hvernig það verkefni gangi.

Loðnuveiðar í Barentshafi máttu hefjast síðastliðinn mánudag en norska síldarsölusamlaginu er ekki kunnugt um að neinar loðnuútgerðir ráðgeri að hefja veiðar strax.