Það hljóp á snærið hjá tólf ára kanadískri stúlku á dögunum þegar hún landaði 280 kílóa túnfiski. Fram að þeim tíma hafði stærsti fiskur hennar verið 500 gramma makríll sem notaður var í beitu.

Túnfiskinn veiddi stúlkan við Nova Scotia í Kanada og naut við það aðstoðar foreldra sinna sem eru vanir stangveiðimenn. Hún var þó sjálf með stöngina mestan tímann. Túnfiskurinn veiddist á aðeins 3-4 metra dýpi. Það tók tvo tíma að landa fiskinum. Síðustu 40 mínúturnar voru sérstaklega erfiðar þar sem fiskurinn braust um af fullum þunga undir bátnum. Varla þarf að taka fram að hér er um að ræða heimsmet í stangveiði í aldursflokki stúlkunnar.

Það fylgir svo sögunni að stúlkan hafi fengið spjaldtölvu í verðlaun frá foreldrum sínum fyrir afrekið.