Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar, í Neskaupstað, Helguvík og á Seyðisfirði, tóku á móti 225.383 tonnum af hráefni á árinu.

Frá þessu segir á heimasíðu fyrirtækisins.

Til samanburðar skal þess getið að á árinu 2017 tóku þær á móti 196.697 tonnum, 131.460 tonnum á árinu 2016 og 259.394 tonnum árið 2015. Aukningin á mótteknu hráefni á milli áranna 2017 og 2018 stafar fyrst og fremst af auknum kolmunnaveiðum en eins ræðst móttekið hráefni verksmiðjanna á hverju ári mjög af því hve mikil loðna er veidd.

Á árinu 2017 tók verksmiðjan í Neskaupstað á móti 118.523 tonnum af hráefni, verksmiðjan á Seyðisfirði 59.420 tonnum og verksmiðjan í Helguvík 18.754 tonnum.