Á tímabilinu 1905-1978 veiddu erlend fiskiskip tæpan helming af öllum botnfiskafla við Ísland eða liðlega 18 milljónir tonna. Aflaverðmæti þess reiknað til núvirðis er um 5.000 milljarðar króna. Fyrir þá upphæð mætti byggja 100 nýja Landspítala með öllum búnaði, svo dæmi sé tekið.
Þetta kemur fram í ítarlegri samantekt í sjómannadagsblaði Fiskifrétta um veiðar erlendra skipa við Ísland á síðustu öldum. Bretar voru langatkvæðamestir í botnfiskveiðum við Ísland á 20. öld og nam afli þeirra 9,4 milljónum tonna að aflaverðmæti 2.580 milljarðar króna á núvirði. Þjóðverjar fiskuðu tæplega 5,6 milljónir tonna fyrir 1.535 milljarða króna á núvirði og Færeyingar rúmlega 1,4 milljónir tonna að aflaverðmæti 395 milljarðar króna á núvirði. Aðrar þjóðir veiddu mun minna. Í þessum útreikningum miðast aflaverðmætið við 275 kr/kg.
Sjá nánar í sjómannadagsblaði Fiskifrétta sem kom út í dag.