Hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson hélt í síðustu viku í nokkurra daga rannsóknarleiðangur til að kanna hafsbotninn vestur af landinu. Um borð var franskur sjóhersnemi, Marie Gaudet, sem er að læra hafmælingar við ENSTA-háskólann í Brest á Bretaníuskaga í Frakklandi.
„Þetta var mjög mótandi og áhugaverð reynsla,“ segir hún og vill sérstaklega þakka rannsóknarteyminu fyrir að hafa tekið sér einstaklega vel.
Hún er á öðru ári í námi sínu við skólann, sem sinnir bæði herskólanemendum og borgaralegum nemendum. Nám hennar er í tengslum við sjóherinn franska og hún reiknar með því að starfa fyrir hafmælingadeild franska sjóhersins að námi loknu.
„Partur af náminu er að verja um tólf vikum erlendis til að kynna okkur aðrar starfsemi og hljóta þjálfun í tengslum við fræðilega kunnáttu okkar.“
Framtíðarverkefni til margra ára
Þriggja mánaða dvöl hennar hér á landi hófst með vikulangri rannsóknarferð með Bjarna Sæmundssyni, skipi Hafrannsóknarstofnunar Íslands, þar sem teymi vísindamanna undir stjórn Steinunnar Hilmu Ólafsdóttur vann að rannsóknum á hafsbotninum og kortlagningu hans.
„Þetta er framtíðarverkefni til margra ára,“ segir leiðangursstjórinn, Steinunn Hilma. „Við erum að kortleggja ólík búsvæði í kringum landið, skilgreina þau og lýsa þeim.“
Hún segir þetta er bæði dýrt og flókið í framkvæmd, „en við höfum forgangsraðað þessu þannig að við byrjum að skoða kóralsvæði og önnur viðkvæm svæði sem við teljum að þurfi að vernda.“
Heillaðist á fjöllum
Marie Gaudet segir það ekki beinlínis tilviljun að hún hafi kosið að koma til Íslands í tengslum við námið: „Satt að segja hafði ég uppgötvað Ísland á síðasta ári þegar ég notaði fríið mitt til gönguferða um þetta fallega land. Ég átti mjög góðar minningar og eftir að hafa séð fjöllin langaði mig til þess að uppgötva hafið í kring og ýmislegt sem því tengist.“
Hún segir íslensku Landhelgisgæsluna auk þess hafa vakið sérstakan áhuga hjá sér þegar hún var að kanna möguleika á starfsnámi.
„Það er nefnilega svo að meðfram náminu mínu í Brest hef ég helgað mikið af frítíma mínum frönsku björgunarbátaþjónustunni. Ég hef fengið mikinn áhuga á björgunarstörfum á sjó og var mjög ánægð með að kynna mér íslensk leitar- og björgunarstörf samhliða starfsnámi mínu.“