Fiskiskipum með aflamark hefur fækkað um 72 frá fiskveiðiárinu 2001/2002 til fiskveiðiársins sem nú stendur yfir, eða sem nemur 16,3%.

Þetta kemur fram í nýútkominni umhverfisskýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).

Togarar eru nú 43 og hefur þeim fækkað verulega frá árinu 1990, en þá voru þeir 111. Í skýrslunni segir að þessi þróun muni haldi áfram og að aflamarksskipum fækki um allt að 16% til viðbótar til ársins 2030. Ráðgert er að fjöldi togara verði þó óbreyttur eða þeim fækki lítillega.

1.647 bátar og skip
Fiskiskipaflotinn var í árslok 2016 tæp 147.000 brúttótonn (BT) og hafði þá minnkað um 28.000 BT frá árinu 2000, segir í skýrslunni.

Árið 2016 voru 1.647 bátar og skip í íslenska fiskiskipaflotanum. Þar af voru 857 opnir fiskibátar, 747 vélskip og 43 togarar. Opnum fiskibátum fækkaði um 22% milli áranna 2000 og 2016. Vélskipum fjölgaði hins vegar ört frá árinu 1990 og náði fjöldi þeirra hámarki árið 2002 en þá voru þau 875. Á árunum 2000 til 2016 hefur vélskipum fækkað samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands úr 808 í 747.