Kótilettufélag togarajaxla stendur fyrir herrakvöldi í Turninum í Kópavogi 4. desember. Á boðstólnum verða lúbarðar eðalkótilettur í raspi, algjörlega ófituhreinsaðar. Ekkert sterkara en malt og appelsín verður drukkið með réttinum. Mönnum er því óhætt að koma á bílum og hjólum, að sögn forsvarsmanna félagsins. Veislustjóri kvöldsins verður Ásmundur Friðriksson þingmaður.

Auglýsing Togarajaxla
Auglýsing Togarajaxla
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Kótilettufélagið var stofnað af Hafliðaguttum sem er félagsskapur fyrrverandi sjómanna á síðutogaranum Hafliða SI. Þeir hafa víða látið til sín taka og meðal annars látið smíða listafögur líkön af síðutogurum sem sjá má HÉR . Hagnaður af kótilettukvöldinu rennur til styrktar góðu málefni. Þeir sem vilja ekki missa af kótilettukvöldinu 4. desember ættu sem fyrst að hafa samband við Gunnar Trausta, forsprakka Hafliðagutta, sem hefur símann 897 9746 og netfangið [email protected] .

Togarajaxlar hafa ekki síst beitt sér fyrir því að Íslendingar viðhaldi þeim sið að éta feitt kjöt, ekki síst kótilettur í raspi. Hefur þeim orðið vel ágengt þannig að þeir óttast skort á kótilettum. Þess vegna sendi Kótilettufélag togarajaxla ályktun til Búnaðarþings á dögunum sem var lesin þar upp. Í ályktuninni var vakin athygli á því að það væri göfugt markmið fyrir Bændasamtökin að stuðla að ræktun fjár með lengri hrygg! Þannig mætti fjölga kótilettunum.