Kótilettufélag togarajaxla stendur fyrir herrakvöldi í Turninum í Kópavogi 4. desember. Á boðstólnum verða lúbarðar eðalkótilettur í raspi, algjörlega ófituhreinsaðar. Ekkert sterkara en malt og appelsín verður drukkið með réttinum. Mönnum er því óhætt að koma á bílum og hjólum, að sögn forsvarsmanna félagsins. Veislustjóri kvöldsins verður Ásmundur Friðriksson þingmaður.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Togarajaxlar hafa ekki síst beitt sér fyrir því að Íslendingar viðhaldi þeim sið að éta feitt kjöt, ekki síst kótilettur í raspi. Hefur þeim orðið vel ágengt þannig að þeir óttast skort á kótilettum. Þess vegna sendi Kótilettufélag togarajaxla ályktun til Búnaðarþings á dögunum sem var lesin þar upp. Í ályktuninni var vakin athygli á því að það væri göfugt markmið fyrir Bændasamtökin að stuðla að ræktun fjár með lengri hrygg! Þannig mætti fjölga kótilettunum.