Furðuleg uppákoma varð í Skotlandi á dögunum. Leiðandi ráðstefnu um fiskeldi í Bretlandi, sem fram fer í skosku hálöndunum í lok maí, var stefnt í hættu vegna þess að tjaldur hafði verpt eggjum inni á væntanlegu sýningarsvæði ráðstefnunnar.
Margir fuglar, þar á meðal tjaldurinn, eru friðaðir í Bretlandi. Það þýðir að ekki má fjarlægja hreiður þeirra. Tjaldurinn gerir gjarnan hreiður beint á malarsvæði og ekki er óalgengt að hann verpi hættulega nálægt vegum og bílastæðum.
Til stóð að reisa hátíðar- og sýningartjald fiskeldisráðstefnunnar á staðnum sem tjaldurinn hafði verpt. Ekki var hægt að flytja ráðstefnuna annað með svo stuttum fyrirvara. Skipuleggjendur hennar sáu því fram á að 10 mánaða undirbúningsvinna væri farin í súginni og milljóna útgjöld töpuð.
Á síðustu stundu tókst að bjarga ráðstefnunni og ná málamiðlun við konunglegu fuglaverndarsamtökin í Bretlandi um að hreiðrið yrði flutt um 10 metra á öruggan stað. Eggin voru fjarlægð með varúð og vonandi fylgdi tjaldurinn á eftir.