Nú liggur fyrir að rétt rúm 30 þúsund tonn af fiski fara í sérúthlutanir eða potta á næsta fiskveiðiári, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. Hér er um að ræða strandveiðar, byggðakvóta, línuívilnun og fleira.
Þorskur vegur þyngst, en um 21 þúsund tonn af þorski fer í sérúthlutanir. Aðrar tegundir sem mynda pottana eru ýsa, ufsi og steinbítur. Umtalsvert hlutfall í þessum tegundum fer í sérúthlutanir, tæp 10% af öllum þorski og 16,5% af heildarafla í steinbít.
Fisks í pottana er aflað að þessu sinni með 4,8% flötum niðurskurði á allar kvótategundir. Næsta fiskveiðiár verður þannig fyrsta kvótaárið þar sem byrðum af pottunum er jafnað út á alla greinina.
Fiskur sem fæst með skerðingu í öðrum tegundum en þorski, ýsu, ufsa og steinbít er boðinn upp í skiptum fyrir pottategundirnar á skiptimarkaði Fiskistofu. Af 21 þúsund tonni af þorski sem fer í pottana koma þannig um 10.300 tonn með beinni 4,8% skerðingu í þorski en reiknað er með um 10.700 tonnum af þorski í gegnum skiptimarkað.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.