HB Grandi er með mestar veiðiheimildir í makríl á árinu 2017. Tíu efstu félögin eru með um 83% af úthlutuðum kvóta. Þetta er meðal þess sem fram kemur í samantekt nýjustu Fiskifrétta á skiptingu veiðiheimilda í makríl í ár.
Íslensk skip geta veitt tæp 177 þúsund tonn af makríl á árinu þegar allt er talið. Þar af hefur rúmum 157 þúsund tonnum verið úthlutað á einstök skip. Alls hafa 286 skip og bátar, að handfærabátum meðtöldum, fengið úthlutað heimildum í makríl.
Af þeim 157 þúsund tonnum sem er úthlutað á skip kemur mest í hlut skipa HB Granda, eða um 20.903 tonn og 13,3% af heildarúthlutun. Þar af eru 16.316 tonn sem byggjast á aflareynslu uppsjávarskipa HB Granda en tæp 4.600 tonn vegna frystitogara og ísfisktogara félagsins. Samherji er í öðru sæti með 18.903 tonn og 12% af heildinni. Eins og HB Grandi fær Samherji umtalsverðar heimildir vegna frystiskipa og ísfisktogara.
Nokkrar útgerðir sem eru aðallega og nær eingöngu í bolfiski hafa fengið töluverðar veiðiheimildir í makríl. Ber þar hæst Brim sem er með 7.389 tonna úthlutun og 4,7% af heildinni. Brim er í 9. sæti yfir fyrirtæki með mestar aflaheimildir í makríl.
Stærstu útgerðirnar eru með verulegan hluta heimildanna eins og fram er komið. Þannig eru 5 stærstu fyrirtækin með um 57% af úthlutun í makríl og þau 10 stærstu eru með um 83%.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.