Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur brugðist við makríldómum Hæstaréttar Íslands og lagt fram frumvarp til kynningar í Samráðsgátt stjórnvalda.
Samkvæmt frumvarpinu á að úthluta aflaheimildum fyrir makrílveiðar næstu vertíðar „á grundvelli tíu bestu aflareynsluára þeirra á árunum 2008–2018, að báðum árum meðtöldum.“
Af alls ellefu árum þessa viðmiðunartímabils ráða því tíu bestu árin.
Með tveimur dómum frá í desember 2018 viðurkenndi dómstóllinn skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins vegna tjóns tveggja útgerðarfélaga í Vestmannaeyjum, Ísfélags Vestmannaeyja. hf og Hugins ehf.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að nú sé tímabært að setja lög um aflamarksstjórn við veiðar á makríl, enda hafi það verið skylt um árabil enda þótt látið hafi verið duga að setja reglugerðir til eins árs í senn um veiðar úr stofninum.
Tafir vegna ágreinings
„Skýringu á þeim drætti sem orðið hefur á þessu má rekja að verulegu leyti til ágreinings um skiptingu veiðiheimilda,“ segir í greinargerðinni. „ Úr þeim ágreiningi var leyst að nokkru með tveimur dómum Hæstaréttar Íslands, frá 6. desember 2018,“ en með þeim dómum viðurkenndi dómstóllinn skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins vegna þess fjárhagstjóns er tvö útgerðarfélög í Vestmannaeyjum, Vinnslustöðin hf og Huginn ehf., hafi orðið fyrir vegna þess að þeim var úthlutað minni aflaheimildum á árunum 2011-14 en skylt hefði verið samkvæmt úthafslögunum svonefndu, nr. 151/1996.
Fyrir skömmu skilaði starfshópur, sem ráðherra fékk til að skoða hvernig stjórnvöld gætu brugðist við þessari niðurstöðu Hæstaréttar, ítarlegri greinargerð um þá möguleika sem væru í stöðunni.
Starfshópurinn taldi stjórnvöld hafa töluvert svigrúm til að bregðast við dómum Hæstaréttar, fari þau þá leiðina að breyta lögum. Svigrúmið væri mun þrengra ef setja ætti reglugerð á grunni núgildandi laga.
Norsk-íslenska síldin sem fordæmi
Fjórar meginleiðir taldi starfshópurinn færar við lagasetningu, eins og sjá má hér á síðunni í hliðarboxi. Ráðherra ákvað að fara leið c, en sú leið miðast við að fara svipað að og þegar úthlutað var aflaheimildum úr norsk-íslenska síldarstofninum.
Með því að miða við tíu bestu aflareynsluárum allra fiskiskipa á tímabilinu 2008 til 2018, að báðum árum meðtöldum, er talið „líklegt að útgerðir sem höfðað hafa mál á hendur íslenska ríkinu, að öðru skilyrðum fullnægðum, muni hvorki ná fram fullri úthlutun miðað við veiðireynslu áranna fyrir 2011, sem vonir þeirra kunna að standa til, né heldur að staða þeirra verði óbreytt,“ að því er segir í greinargerð.
Hlutfall þessara útgerða muni aukast „sem nemur hlutfalli aflamagns áranna 2008-2010 í aflamagni viðmiðunartímans,“ en aftur á móti muni „eigendur skipa sem hlotið hafa úthlutun í skjóli reglugerða sjávarútvegsráðherra, sem reynst hafa án lagastoðar, verða fyrir skerðingu, sem getur reynst umtalsverð í einhverjum tilvikum.“
Í greinargerðinni er tekið fram að þetta frumvarp taki í engu á uppgjöri bótakrafna vegna veiðistjórnunar makríls frá árinu 2011.
Fram kemur að auk Hugins og Síldarvinnslunnar hafi tvö önnur útgerðarfélög höfðað mál í héraði til viðurkenningar á skaðabótaábyrgð ríkisins. Nú standi yfir viðræður um gerð dómsáttar í máli þeirra beggja.
„Þá hafa enn önnur útgerðarfélög sem, líkt stendur á, um sent erindi til ríkislögmanns þar sem fram kemur að þau undirbúi málssókn.“
Fjárhagstjónið stendur
Ekki var tekin efnisleg afstaða til bótakrafna í dómum Hæstaréttar, en í greinargerð frumvarpsins segir að um fjárhæð bótakrafna megi hafa hliðsjón af kröfu sem lýst var í dómi Hæstaréttar í máli Ísfélagsins. Tjón þess félags vegna missis aflaheimilda á árunum 2011 til 2014 geti, samkvæmt áliti Deloitte ehf., numið um 2,3 milljörðum króna og vænta má þess að hliðstæð krafa sé vegna áranna síðan, þ.e. tímabildins 2015-18.
Það er því ljóst að skaðabótakröfur muni skipta milljörðum eða jafnvel tugmilljörðum króna, sem ríkissjóður þarf að greiða útgerðarfélögum vegna þess fyrirkomulags sem haft hefur verið á makrílveiðum frá og með árinu 2011 og nú hefur verið dæmt ólöglegt.
„Það felst nokkur áskorun í því fyrir Fiskistofu að reikna aflahlutdeildir hvers skips þar sem um svo langt tímabil aflareynslu er að ræða,“ segir í greinargerðinni.
Ætlunin er að gefa út reglugerð, verði frumvarpið að lögum, „ sem mundi mæla fyrir um úthlutun hluta aflamagnsins til bráðabirgða meðan gefinn yrði frestur til andmæla og endanleg hlutdeild sett.“
Valkostir við lagasetningu
a. Í fyrsta lagi að veita ráðherra heimild til að miða við veiðireynslu áranna 2005-2010 við úthlutun aflahlutdeilda.
b. Í öðru lagi að veita ráðherra heimild, við ákvörðun aflahlutdeila, til að festa núverandi úthlutun aflaheimilda í sessi.
c. Í þriðja lagi veita ráðherra heimild til að miða veiðireynslu við lengra tímabil við úthlutun aflahlutdeilda en samkvæmt gildandi lögum á sama hátt og gert var við úthlutun aflahlutdeilda úr norsk-íslenska síldarstofninum.
d. Í fjórða lagi að veita ráðherra heimild til að ákveða aflahlutdeild með blönduðum hætti þar sem væri að hluta byggt á a) og að hluta á b) með áþekkum hætti og gert var með sérstökum lögum um veiðistjórn á úthafsrækju.
Meginefni frumvarpsins
„Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr. skal Fiskistofa úthluta einstökum skipum aflahlutdeild í Norðaustur-Atlantshafsmakríl á grundvelli tíu bestu aflareynsluára þeirra á árunum 2008–2018, að báðum árum meðtöldum. Hafi skip komið í stað skips sem áunnið hefur sér aflareynslu á þessu tímabili, skal það skip sem í staðinn kemur njóta þeirrar aflareynslu. Þá gildir einnig ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga um stjórn fiskveiða, eftir því sem við á.“