Einn af þeim bátum sem grotna nú niður á afgirtu geymslusvæði við Eyjaslóð í Örfirisey er Haffari EA 133. Upphaflega hét hann Háborg NK 77 og var í eigu Gunnars Vilmundarsonar og Þórarins Guðbjartssonar í Neskaupstað. Báturinn var smíðaður úr eik hjá Trésmiðju Austurlands á Fáskrúðsfirði og afhentur 1976, að því er segir á vefnum Skipamyndir Hafþórs Hreiðarssonar. Báturinn var í Neskaupstað til haustsins 1980 en fór á flakk eftir það. Við hlið hans er Viðeyjarferjan Skúlaskeið RE sem var smíðuð 1959 á Siglufirði úr furu og eik.