„Ég ákvað fyrir ári síðan að vera út þetta ár á sjó og hætta svo bara. Fannst þetta komið gott, er náttúrlega kominn á aldur og orðinn löggildur, varð 67 í janúar á þessu ári,“ segir Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Jóni Kjartanssyni SU 111, sem í haust fór sinn síðasta túr.
Grétar lítur yfir farinn veg og horfir fram á veginn í viðtali í jólablaði Fiskifrétta. Ferill hans til sjós spannar fimmtíu ár.
Hóf ferilinn á Norðursjónum
„Ég fór sautján ára 1974 fyrst á sjó. Þá fór ég í Norðursjóinn þar sem við vorum á síld og lönduðum í Danmörku,“ segir Grétar sem kveður sig einfaldlega hafa langað að prófa sjómennskuna.
„Ég hafði alltaf unnið hér bara á sumrin í landi og langaði að prufa. Ég sótti um hjá pabba besta vinar míns þá og við fórum saman í Norðursjóinn á Sæberg SU9,“ segir Grétar. Veitt hafi verið í landhelgi Danmerkur vestur af Bretlandi og Skotlandi og Hjaltlandseyjum. Oftast hafi aflanum verið landað í Hirsthals og einnig í Skagen.
„Þetta var mjög skemmtileg upplifun fyrir ungan mann,“ segir Grétar um þetta úthald sem stóð í fjóra mánuði samfleytt. „Þegar ég kom heim fór ég í skóla og ætlaði að ganga menntaveginn. En síðan fór maður aftur á sjó og ég endaði í Stýrimannaskólanum tvítugur.“
Smitaðist af móðurbræðrunum
Áður en Grétar hóf nám í Stýrimannaskólanum hafði hann verið til sjós á Sæberginu og togaranum Hólmatindi sem gerðir voru út frá heimabænum Eskifirði. Segir hann þetta hafa verið skemmtilegan tíma.
„Þangað réði ég með mínum besta vini og er hann búinn að vera með mér á Jóni Kjartanssyni í nokkur ár. Á þessum skipum voru bæði fullorðnir menn og ungir strákar og oft fjörugt og mjög gaman.“
Grétar segir sér hafa líkað vel á sjónum. Hugurinn hafi snemma beinst þangað.
Upplifði snemma hvernig sjómennskan virkaði
„Það var mikið af sjómönnum í kringum mig, bræður hennar mömmu voru allir sjómenn og ég hafði mikinn áhuga á skipum, bátum, fiskum og öllu sem sneri að sjómennsku,“ segir Grétar sem kveðst hafa fylgst vel með móðurbræðrum sínum. „Þannig að maður smitaðist og fylgdist sem barn mikið með bátum og var mikið á bryggjunni að leika sér. Það var mikið af síldarplönum á Eskifirði þannig að maður var alltaf í kringum báta, sjó og fisk,“ segir hann.
Allt hafi þetta verið óhemju spennandi. „Og bræður hennar mömmu alltaf á sjó þannig að maður upplifði það mjög snemma hvernig sjómennskan virkaði.“
Skipstjóri á Sæljóninu
Grétar ákvað að ná sér í réttindi og settist á skólabekk í Stýrimannaskólanum haustið 1977. Sumarið 1978 var Grétar á togaranum Hólmanesi á Eskifirði. Að skólanum loknum vorið 1979 hafi hann farið beint í að verða fyrsti stýrimaður á Seley á Eskifirði. „Það var loðnuskip og svo var það líka á trolli,“ segir hann.
Þarna hafi hann verið í eitt ár. „Þá ákvað ég að prófa að fara sem stýrimaður á togara og fór á Hólmatind og var á honum í eitt ár,“ segir Grétar. „Þegar ég var 24 ára var mér boðin skipstjórastaða á báti sem hét Sæljón og var þar í sex og hálft ár. Þetta var 150 tonna bátur og við vorum á alls konar veiðum. Við vorum mikið í síld inni á fjörðunum á haustin, trolli á sumrin og á þorskanetum yfir veturinn.“
Fjórir Jónar
Með Sæljónið var Grétar út árið 1987 og fór yfir á Jón Kjartansson í byrjun árs 1988. Síðan þá hefur Grétar verið skipstjóri á fjórum mismunandi skipum undir því nafni.
„Sá fyrsti tók ellefu hundruð tonn, það var gamli Narfinn. Við fórum með hann í breytingar til Póllands og eftir það tók hann fimmtán hundruð tonn. Það má eiginlega segja að þetta séu fjórir eða fimm Jónar sem ég er búinn að vera með, allt hörkuskip,“ segir hann.
Stýrimaður fyrir borð norður í hafi
Gæfa hefur fylgt Grétari á sjónum. Hann segir að aldrei hafi orðið slys nema minniháttar um borð í hans skipum. Með einni undantekningu þó.
„Við höfum sloppið algjörlega nema ég sjálfur eitt haustið þegar ég var stýrimaður á Seley. Þá féll ég aftur af skipinu og lenti í sjónum þegar við vorum á loðnu norður í hafi. Það er það mest ógnvekjandi sem ég hef lent í,“ segir Grétar. Skipið hafi verið stopp þegar hann féll útbyrðis.
Einhvern veginn dröslað um borð
„Það gaf sig öryggisgrind sem ég hallaði mér upp að. Það var mjög kalt og þetta var mjög tæpt – en ég lifði það af,“ tekur Grétar fram. „Það var kastað til mín björgunarhring og ég komst í hann. Síðan var mér einhvern veginn dröslað um borð og svo missti ég bara meðvitund. Síðan var maður hresstur við með heitri sturtu. Það var nú ekkert verið að flækja hlutina á þessum tíma, engin áfallahjálp eða neitt.“
Þarna í nóvember 1979 var hinn nýbakaði stýrimaður aðeins 22 ára. „Þetta var dálítið sjokk en maður var fljótur að jafna sig,“ segir Grétar sem telur þennan atburð hafi orðið til þess að hann hafi orðið varkárari. „Maður passaði sig betur.“
Átakanlegt er Syneta fórst
En þótt Grétar og hans menn hafi sloppið við önnur alvarleg slys og óhöpp eins og það sem henti hann sjálfan upplifði hann mikinn sorgaratburð þegar breska tankskipið Syneta fórst á jólunum 1986 eftir að hafa strandað á eyjunni Skrúði í mynni Fáskrúðsfjarðar. Tólf menn voru í áhöfn skipsins og létu þeir allir lífið. Grétar tók þátt í björgunarstörfunum.
„Það var mjög átakanlegt, líka af því að við náðum þessum eina manni sem var með lífsmarki sem var stýrimaður,“ segir Grétar en ekki reyndist unnt að bjarga lífi skipbrotsmannsins.
„Ég man þetta eins og það hafi gerst í gær. Þetta var á annan í jólum 1986. Þegar útkallið kom var ég heima hjá mér að leika við krakkana. Það fóru allir út sem gátu farið til að leita og reyna að bjarga einhverjum,“ rifjar Grétar upp um þetta skelfilega slys.
Menn eru meðvitaðri um hætturnar
Frá þessum tíma og frá því að Grétar byrjaði sjálfur til sjós hafa gríðarlegar breytingar orðið á öryggi og vinnuumhverfi sjómanna.
„Það var mjög mikil breyting til batnaðar þegar Slysavarnaskólinn byrjaði,“ segir Grétar. „Það er orðið mjög lítið um slys. Menn eru meira meðvitaðir um hættur og kunna meira til verka, nota öryggisbúnað meira en áður var gert, eins og vesti og hjálma. Þetta hefur allt verið til mikilla bóta.“
Öryggismálin í góðu horfi í dag
Þá segir Grétar skipin einfaldlega að öllu leyti orðin miklu betri og miklar breytingar á öllum sviðum frá því að hann byrjaði til sjós sem ungur maður.
„Aðbúnaðurinn, sérstaklega í þessum stærri skipum, er mjög flottur, alveg fyrsta flokks,“ segir Grétar. Hlutirnir séu nú komnir í mjög gott lag. Hann nefnir sérstaklega að menn skuli þurfa að fara í Slysavarnaskólann áður en þeir geti gerst löggildir hásetar og þurfi svo að fara á fimm ára fresti í endurmenntun. „Ég held að þetta sé í eins góðu horfi og það getur verið.“
Gaman í síld inni á fjörðum
En sjómennskan er ekki aðeins hættur og streð. „Það eru þessar góðu loðnuvertíðar sem hafa verið. Síðan voru síldveiðarnar þegar við vorum á síldinni á fjörðunum með Sæljónið mjög skemmtilegar,“ svarar Grétar spurður hvað honum hafi þótt skemmtilegast við sjómennskuna.
„Þessar nótaveiðar eru bara svo spennandi og skemmtilegar,“ heldur Grétar áfram. „Þetta er yfirleitt fljótgert þegar gengur vel að klára að fylla. Nótaveiðar eru alltaf skemmtilegasti veiðiskapurinn, ég held að það finnist mjög mörgum.“
Næsti hluti jólablaðsviðtals Fiskifrétta við Grétar Rögnvarsson birtist á vef blaðsins á morgun. Þar ræðir hann um kosti kvótakerfisins og galla framsals og um fórnarkostnaðinn við sjómennskuna sen hann kveður vera starf sem hiklaust megi mæla með.