Enginn árangur varð af tilraunaveiðum Norðmanna á túnfiski í ár, en tvö skip fengu leyfi til veiðanna að þessu sinni. Þetta er annað árið í röð sem norsk stjórnvöld hafa auglýst slík leyfi til umsóknar og fékkst heldur enginn túnfiskur í fyrra.

Hins vegar hafa norsk skip fengið 42 túnfiska sem meðafla á öðrum veiðum það sem af er árinu. Samtals vógu þessir fiskar 8,4 tonn. Meðalþyngd var því 200 kíló.

Alls fengu 14 norsk skip túnfisk sem meðafla, annars vegar á kolmunnaveiðum vestur af Bretlandseyjum í febrúar/mars og hins vegar á makrílveiðum í september.

Í frétt í Fiskeribladet/Fiskaren kemur fram að á árunum 2009-2012 hafi enginn túnfiskur verið skráður á aflaskýrslur í Noregi. Árið 2013 veiddust tveir fiskar, samtals 310 kíló, og árið 2014 einn fiskur upp á 120 kíló.