Á málstofu Hafrannsóknastofnunarinnar þann 14. apríl flytur Jónas Páll Jónasson sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun erindi sem nefnist: Tilraunaveiðar og rannsóknir á hörpudiski í Breiðafirði. Málstofa hefst kl. 12.30 í fyrirlestrarsal á fyrstu hæð á Skúlagötu 4.

Umfangsmiklar hörpudisksveiðar ( Chlamys islandica ) voru stundaðar í Breiðafirði frá árinu 1970 til ársins 2003 þegar þeim var hætt vegna hruns í stofninum.

Farið verður yfir, í stuttu máli, þróun veiða og nýlegar rannsóknir á stofnstærð í firðinum. Árið 2014 var myndavél notuð við stofnstærðarmat í fyrsta sinn á völdum svæðum utan hefðbundinnar veiðislóðar. Skel fannst í veiðanlegu magni nokkuð víða en jafnframt varð vart við yngri skel. Tilraunaveiðar, í samstarfi við aflahlutdeildarhafa, hófust sama ár og voru um 280 t veidd í Breiðasundi í suðurhluta fjarðarins. Veturinn 2015-2016 var rannsóknum og tilraunaveiðum haldið áfram en þá veiddust tæp 630 t á fjórum svæðum í firðinum. Um langtímaverkefni er að ræða og markmiðið er að fá betri upplýsingar um afrakstursgetu svæðanna. Veiðarfæri hafa einnig verið til skoðunar og er nú notaður léttari plógur en þegar veiðum var hætt á sínum tíma. Einnig fóru fram tilraunir með nýtt veiðarfæri og verða niðurstöður úr þeirri rannsókn kynntar.