Sjávarútvegsráðherra Færeyja, Høgni Hoydal, hefur fengið heimild til að koma á fót til reynslu uppboðssölu á ákveðnum hluta af uppsjávarkvóta Færeyinga og botnfisk í Barentshafinu. Frá þessu er skýrt í frétt á vef færeyska sjónvarpsins.

Lög þessa efnis voru samþykkt í færeyska lögþinginu í gær. Samkvæmt lögunum um tilraunauppboðið fær sjávarútvegsráðherra heimild til að bjóða upp 9 þúsund tonn af makríl, 4 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld, 20 þúsund tonn af kolmunna og 3 þúsund tonn af botnfiski í Barentshafi. Lögin taka gildi 15. apríl næstkomandi.

Høgni Hoydal lýsir yfir ánægju sinni með samþykkt lögþingsins þótt það hafi tekið þingið fjóra mánuði að afgreiða málið.