Ölfus efnir til íbúakosningar um leyfi fyrir fyrirtækið Heidelberg að reisa mölunarverksmiðju við Þorlákshöfn.
Íbúakosningin átti upphaflega að vera 1. júní síðastliðinn en var frestað eftir að alvarlegar athugasemdir bárust frá laxeldisfyrirtækinu First Water á þeim tíma. Bréf frá First Water barst Ölfusi rétt fyrir bæjarstjórnarfund í síðustu viku þar sem ný tímasetning íbúakosningar var ákveðin.
Funda með forstjórunum
„Í bréfinuer First Water fyrst og fremst að kalla eftir upplýsingum um niðurstöður þeirra mælinga sem eru búnar að eiga sér stað. Þeir vilja, eins og allir aðrir, fá að vita hvort það sé rykmengun, titringsmengun eða hljóðmengun frá þessari starfsemi,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.
„Við eigum fund nú í vikunni með forstjórum landeldisfyrirtækjanna hér á svæðinu og vinnum þetta áfram í góðri sátt við þá sem og mögulegan framkvæmdaraðila hjá Heidelberg,“ heldur Elliði áfram.
Áhersla á upplýsingar
Að sögn Elliða hefur verkfræðistofan COWI gert mælingar og úttekt fyrir Heidelberg. Ölfus láti nú verkfræðistofuna Eflu yfirfara þessi gögn.
„Bæjarbúar verða upplýstir um niðurstöður þessara mælinga og taka svo ákvörðun í íbúakosningu út frá því,“ segir Elliði sem hyggst bíða eftir áliti Eflu áður en hann tjáir sig um niðurstöður COWI.
Íbúakosningin hefst 23. nóvember og stendur í tvær vikur.
„Það verða öll gögn lögð fram, haldnir íbúafundir og mikil áhersla lögð á að upplýsa bæjarbúa um raunforsendur þessa verkefnis og fá fram stöðuna eins og hún er: Er rykmengun? Er hljóðmengun? Er titringsmengun? Það þarf að takast á um þetta á raunforsendum frekar en eftir tilfinningum.“