ff

Sjávarútvegsráðuneytið hefur rýmkað heimildir makrílveiðiskipa til að flytja aflaheimildir milli einstakra potta, þó aðeins frá stærri pottum í þá minni.

Aflareynsluskip, sem hafa stærsta pottinn, máttu áður aðeins flytja heimildir á milli skipa í sama potti innan sömu útgerðar. Nú er þeim einnig heimilt að flytja aflaheimildir milli potta, þ.e. til vinnsluskipa (frystitogara) og skipa án vinnslu ef þau eru í eigu sömu útgerðar.

Vinnsluskip, sem eru með annan stærsta pottinn, máttu áður sömuleiðis aðeins flytja aflaheimildir innan pottsins til skipa í eigu sömu útgerðar. Eftirleiðis mega þau flytja heimildir niður til skipa án vinnslu og þar gildir sama reglan að skip þurfa að vera í eigu sömu útgerðar. Vinnsluskipum er hins vegar ekki heimilt að flytja heimildir upp til aflareynsluskipa.

Skip án vinnslu í eigu sömu útgerðar mega eftir sem áður flytja heimildir milli sín ef skipið sem flutt er frá er búið að veiða 50% af heimildum sínum. Þessi skipaflokkur getur ekki flutt heimildir milli potta.