Í Alabama í Bandaríkjunum er stundað umfangsmikið eldi á catfish sem er mjög vinsæl og útbreidd eldistegund þar vestra, en þessi fiskur hefur verið nefndur fengrani á íslensku. Það af fiskinum sem ekki nýtist til manneldis svo sem hausar, bein, afskurður og slóg verður bráðlega gert að umhverfisvænu áburðarþykkni sem selja á framleiðendum lífrænna afurða í Miðausturlöndum, Kína og Latnesku-Ameríku.
Fyrirtækið Denali Organics í Alabama stendur að þessari áburðarframleiðslu í nýrri verksmiðju sem hefur starfsemi á næsta ári. Hún verður sú fyrsta af mörgum sömu gerðar. Áburðinum er ætlað að skila næringarefnum aftur í jarðveginn ef frá eru talin nítröt sem oft eru í tilbúnum áburði.
Afkastageta nýju verksmiðjunnar verður 26.000 lítrar af áburði á dag eða 7,5 milljónir lítra á ári.
Mest af fiskúrganginum frá eldisstöðvunum í Alabama hefur hingað til farið til framleiðslu á gæludýrafóðri.
Fis.com skýrir frá þessu.