Opnun tilboða vegna tímabundinnar leigu á þyrlu til Landhelgisgæslunnar fór fram í dag hjá Ríkiskaupum.  Niðurstöður urðu þær að tvö tilboð bárust. Annars vegar þyrla af gerðinni Aerospatiale Super Puma AS332 L1, sem er sömu tegundar og þyrlur Gæslunnar. Þyrlan er í eigu Knut Axel Ugland Holding AS sem einnig á þyrlu LHG, TF-GNÁ.

Hins vegar barst frávikstilboð um leigu á Dauphin AS365N – TF-HDU sem er í eigu Norðurflugs ehf. Í útboðsgögnum var gerð krafa um þyrlu af gerðinni Aerospatiale Super Puma og er tilboðið frá Norðurflugi frávik þar sem þyrlan sem þeir buðu fram er af gerðinni Dauphin.

TF-LÍF björgunarþyrla Landhelgisgæslu Íslands fer í skoðun sem fer fram í Noregi eftir áramót og er gert ráð fyrir að hún muni standa til 10. mars.  Skoðun sem þessi er kölluð G-skoðun og hefur þyrlan aldrei farið í hana áður.