Ísfisktogarar í Síldarvinnslusamstæðunni eru um þessar mundir að halda til veiða að loknum þeim veðurofsa sem ríkt hefur síðustu dagana. Togararnir hafa legið í höfn í um það bil vikutíma.

Gullver NS hélt til veiða frá Seyðisfirði í gærkvöldi. Þórhallur Jónsson skipstjóri sagðist í samtali við vef Síldarvinnslunnar vera ósköp feginn að geta hafið störf á ný. „Við ætluðum út á mánudagskvöld en spáin fyrir næstu daga gerði það að verkum að hætt var við það,” sagði Þórhallur.

Í Hafnarfjarðarhöfn í heila viku

Vísistogarinn Jóhanna Gísladóttir GK lét úr höfn í Hafnarfirði í morgun. Einar Ólafur Ágústsson skipstjóri sagði að legið hefði verið í Hafnarfjarðarhöfn í heila viku. „Það er kominn tími til að halda til veiða. Það er mikil ölduhæð ennþá og sjólag er alls ekki gott þannig að þetta verður örugglega bölvaður skælingur til að byrja með. Það er eins gott að eitthvað fiskist,” sagði Einar Ólafur.

Vestmannaey VE hélt til veiða frá Vestmannaeyjum síðdegis í gær. Birgir Þór Sverrisson skipstjóri mat aðstæður áður en lagt var frá bryggju. „Það er dottið niður í 20 metra og það er ennþá haugasjór en mér sýnist vera um 200 metrar á milli öldutoppa. Það þýðir ekkert annað en að drífa sig út þó það verði töluverður veltingur. Staðreyndin er einfaldlega sú að fyrstur kemur fyrstur fær,” sagði Birgir Þór.

Bergur VE mun væntanlega láta úr höfn frá Eyjum um þrjúleytið í dag. Ragnar Waage Pálmason skipstjóri sagði að veðurfar eins og ríkt hefur síðustu dagana ætti ekki að koma neinum á óvart. „Menn þurfa að vera viðbúnir því að veður eins og þetta trufli veiðar á þessum árstíma því það er nú einu sinni vetur. En það eru allir ánægðir þegar haldið er til veiða á ný,” sagði Ragnar.