Hilmar er grafískur hönnuður og kveðst sjálfur vera með blæti fyrir kortum. Útgáfusaga kortanna nær tólf ár aftur í tímann en þau hafa ekki selst hraðar áður.
„Eftirspurnin er mikil og ég skil þetta eiginlega ekki sjálfur. Kortin hafa rokið út núna í talsverðum fjölda á nokkrum dögum. Það hafa svo margir áhuga á sjónum og menn virðast vilja vera með á nótunum,” segir Hilmar.
Bjarni Sæmundsson var best þekktur fyrir fiskirannsóknir sínar. Hann kenndi náttúrufræði við Lærða skólann í 29 ár. Þegar kennslu lauk á vorin ferðaðist hann um landið og kynnti sér fiskveiðar landsmanna. Upp úr rannsóknaferðum hans kom út ritgerðin „Fáein orð um fiskveiðar vorar”. Fiskimiðakort Bjarna Sæmundssonar kom fyrst út árið 1926 í bók hans Fiskarnir. Bókin er 528 blaðsíður og talin eitt merkilegasta rit sem kom út á fyrri hluta 20. aldar á sviði náttúrufræða. Kortið var í lit og var það fyrsta þar sem nefnd voru til sögunnar fiskimiðin í kringum landið og þau staðsett. Hilmar skannaði inn upprunalega kortið sem er varðveitt á Landsbókasafninu og útbjó það til prentunar.
Mikill áhugi
„Fiskimiðin eru mörg og þekking á þeim ekki útbreidd. Skipstjórinn á Blæng NK hafði til dæmis samband við mig og falaðist eftir kortinu sem hann vildi setja upp á áberandi stað í skipinu. Það gæti hugsanlega orðið til þess að draga úr ferðum manna upp í brú til að spyrja á hvaða miðum þeir væru þá og þessa stundina,” segir Hilmar.
Fyrir tólf árum lagði starfsmaður í sjávarútvegsráðuneytinu og kunningi Hilmar það til við hann að reyna að koma Fiskimiðakorti Bjarna Sæmundssonar í öll skip og fiskvinnslur landsins. Hilmar tók hann á orðinu. Hann lagaði kortið til og gerði það prentvænt. Á þremur árum seldi hann einungis þrjú. Í framhaldinu fór hann að íhuga mátt auglýsingafræðinnar. Hann auglýsti kortin til sölu á tölvupósti á markhóp sinn og hafði þá hannað skotskífu sem hann felldi inn í tölvupóstinn. Þá stóð ekki á viðbrögðunum og á einni viku seldust 80 kort.
„Kaupendurnir núna er almenningur en skipstjórnarmenn og útgerðir líka en þeir velja gjarnan stærra kortið. Þau eru með þriggja punkta festingum þannig að þau hreyfast ekki á veggjum þrátt fyrir vont sjólag. Kortin eru prentuð á vandaðan pappír með litaprentara sem skilar litaáferð með 60 ára endingu án þess að litirnir dofni,” segir Hilmar.