Á vef Samherja var nýlega haft eftir tveimur skipstjórum fyrirtækisins að þeir teldu hvalastofna hafa gríðarleg áhrif á stærð loðnustofnsins.
„Það má hins vegar varla tala upphátt um að heimila nauðsynlegar hvalveiðar, þá verður allt vitlaust í ákveðnum hópum í þjóðfélaginu,“ sagði Guðmundur Þ. Jónsson á vef Samherja. Sér skiljist að langreyðar éti um eitt tonn og hnúfubakar hálft tonn af loðnu á sólarhring. „Við erum að tala um svo stórar tölur að þær hafa áhrif á hagvöxt alls þjóðarbúsins. Þess vegna verðum við að taka alvöru umræðu um hvalveiðar,“ sagði Birkir Hreinsson.
„Þetta er auðvitað flókið og eldfimt mál. Við vitum að hnúfubakur og hrefna éta loðnu og tannhvalir eitthvað líka en það er mjög erfitt að segja hversu mikið,“ segir Guðjón Már Sigurðsson, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, spurður um stöðuna. Guðjón segir rannsóknir á hnúfubak skorta.
„Við vitum úr veiðunum hvað hrefnur og langreyðar eru að éta en við eigum eiginlega engin magagögn úr hnúfubak vegna þess að hann var friðaður svo snemma,“ segir hann. Langreyðar séu aðallega í átu en hjá hrefnunni sé fæðan meira blönduð fiski.
Einn þriðji fiskur
„Það eru til orkuútreikningar sem segja að hnúfubakur þurfi fimmhundruð kíló af bráð á dag til að viðhalda sér. Það getur verið hvað sem er, eins og loðna, áta eða síld. Í fyrri rannsóknum hefur verið skotið á að um einn þriðji af fæðunni sé fiskur,“ segir Guðjón.
Hnúfubak við landið hefur að sögn Guðjóns fjölgað mjög mikið. Í fyrstu talningunni 1987 hafi sést svo fá dýr að ekki hafi verið hægt að meta stofnstærðina. Árið1995 hafi stofninn verið metinn á bilinu tvö til þrjú þúsund dýr. Síðan þá hafi stofninn vaxið um 10 til 12 prósent á ári og verið metinn á bilinu tíu til fimmtán þúsund dýr eftir síðustu talningu sem verið hafi árið 2015.
Spurður hvort mögulegt é að hvölum hafi fjölgað svo mikið að þeir haldi loðnustofninum undir þeim mörkum sem við viljum hafa hann segir Guðjón það ekki vitað, óvissan sé svo mikil. Eitthvað kunni þó að vera til í þessu.
Vafasamt vísindalega
„Við vitum það bara ekki, það er svo mikil óvissa í þessu. Stundum er rætt um að veiða hnúfubak til að koma í veg fyrir þetta en það yrðu þá ekki sjálfbærar veiðar sem yrði farið í, það yrði að vera svo svakalegt magn til að hafa áhrif. Það yrði mjög vafasamt vísindalega að mæla með slíkum veiðum,“ segir Guðjón.
Í dag segir Guðjón örfáa hnúfubaka vera veidda í heiminum. Það sé á Grænlandi og að nokkrir eyþjóðir í Karíbahafinu veiði eitt dýr á ári. Hnúfubakarnir þar og hér séu úr sama stofni.
Meiri rannsókna er sem sagt þörf. Guðjón segir óvissuna meðal annars lúta að því hversu mikið hnúfubakur og aðrar hvalategundir séu í loðnunni, hvort það sé hluti stofnsins eða allur stofninn og hversu lengi það standi yfir. Af húðsýnum megi sjá hvort þeir hafa verið að éta átu eða fisk. Átak í þessu hafi verið gert í samstarfi við Háskóla Íslands í kringum 2018 og 2019. „Niðurstöðurnar eru að koma fyrst úr því núna og er verið að vinna úr þeim,“ segir hann.
Hnúfubak fjölgar enn
Síðasta talan um hvalastofna var gefin út 2016 og byggði á talningu frá árinu áður. Þá var hnúfubaksstofninn metinn tíu til fimmtán þúsund dýr sem fyrr segir. Hvalatalning fór aftur fram í sumar og segir Guðjón að fyrstu niðurstöður úr henni ættu að koma næsta vor.
„Það er tilfinning reyndari manna í talningunni að það hafi verið meira af hnúfubak, en það þarf að gera greiningu á þessu. Tilfinningin hjá mörgum er líka sú að þeir séu lengur við landið. Áður voru þeir bara yfir sumarið og átu og fóru svo suður á bóginn í Karíbahafið þar sem þeir eignast kálfa. En nú eru þeir lengur hér við landið og eru hér inni á fjörðum nánast allt árið.“
Hjá matvælaráðuneytinu liggur nú fyrir ný umsókn Hvals hf. um ótímabundið leyfi til veiða á langreyði.