Norski togarinn Hekketind, sem er í eigu dótturfélags Aker Seafood, hefur verið sviptur veiðileyfi í sjö mánuði vegna ólöglegs brottkasts. Þetta er þyngsta refsing í Noregi fyrir brot af þessu tagi, samkvæmt frétt í norska ríkissjónvarpinu.
Norska fiskistofan svipti togarann veiðileyfinu fyrir endurtekin brot. Í síðustu viku var Aker Seafood dæmt til að greiða 870 þúsund norskar krónur (18,5 milljónir ISK) fyrir brotin sem áttu sér stað árið 2010.
Málið komst upp eftir að sjómaður um borð í togaranum tók myndir af ólöglegu brottkasti. Myndirnar sýndu að fiskurinn var marinn í hálfgerða súpu áður en honum var kastað í hafið. Sjómaðurinn fullyrðir að um 30% af aflanum hafi verið kastað í þessu tilviki. Hann segist einnig hafa verið um borð þegar um 45% aflans hafi verið kastað, undirmálsfiski og fiski af rangri tegund.
Reyndar var það dótturfélag Aker Seafood sem tilkynnti sjálft um meint brottkast um borð í Hekketind. Anker Seafood neitar fullri sök og áfríar málinu til fiskistofu. Fyrirtækið segir að dómurinn sé byggður á fullyrðingum eins manns sem stangist á við framburð 25 annarra um borð. Fyrirtækið vill að svipting veiðileyfis í sjö mánuði verði dregin til baka sem og 870 þúsund króna sektin.