Talið er að með samþykkt stjórnarliða á frumvarpi Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra á Alþingi á mánudag megi gera ráð fyrir um sjö milljarða króna hækkun veiðigjalda á ársgrundvelli.

Gunnþór Ingvason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir að nú hljóti öll sjávarútvegsfyrirtæki að fara vandlega ofan í sinn rekstur þegar sjö til átta milljarðar króna hverfi út úr greininni sem jafngildi tvöföldun á gjöldum. Hann segir gleymast að greinin sé þegar að greiða há gjöld.

„Það liggur fyrir að menn þurfa að bregðast við slíku,“ segir Gunnþór. Veiðigjöld á bolfiskfélög hækki um 60 til 85 prósent, uppsjávarfélög um 100 prósent.

Fækkun og betri nýting skipa

„Það er misjafnt hvernig þetta leggst á félög, sem helgast af stærð þeirra og þessum afslætti af veiðigjöldum. Það segir allt um hversu há gjöldin eru á einstakar tegundir að það þarf að gefa mikla afslætti til að þess að menn geti staðið undir þeim, slík auðlindagjöld geta ekki verið sjálfbær,“ segir Gunnþór.

Varðandi aðgerðir sem grípa þurfi til segir Gunnþór að breytingar taki tíma.

„Menn þurfa að greina og fara yfir hlutina og taka stefnu til hagræðingar. Ég held að menn hljóti að skoða betri nýtingu á fjárbindingu í greininni. Það þarf að nýta fjárfestingar betur og augljóst að ekki verður fjárfest af sama krafti og verið hefur. Það getur komið fram í fækkun skipa og betri nýtingu þeirra skipa sem eru fyrir til að ná niður kostnaði til að mæta aukinni skattheimtu,“ segir Gunnþór. Stærri fyrirtækin séu vissulega betur í stakk búin til að hagræða með slíkum hætti en þau minni.

Selja eða sameinast

„Smærri fyrirtæki eru sett í þá stöðu að ráða illa við þetta eða þá að það er enginn afgangur til að leggja í nýfjárfestingar eða endurnýjun á skipum og búnaði. Þau eru jafnvel sett í þá stöðu að þurfa að selja sig út eða sameinast öðrum,“ segir Gunnþór. Samþjöppun við þessar aðstæður sé óhjákvæmileg afleiðing af stefnu stjórnvalda.

„Tilgangur kvótakerfisins þegar það var sett á var að hagræða og fækka skipum og ná utan um þau vandamál sem þá voru og ýmsar þjóðir glíma enn við í dag. Lausnin víða hefur falið í sér ívilnanir sem ríkið þarf að standa undir í stað þess að reka arðbæran og sjálfbæran sjávarútveg sem hafi jákvæð áhrif á samfélög víða um land. Menn spáðu, og það varð raunin, að ráðast þyrfti í aukna hagræðingu með upphaflegri tilkomu veiðigjalda. Nú bætist við hærri gjöld og ívilnanir sem skapar óvissu og óljós áhrif á einstakar útgerðir,“ segir Gunnór. Þetta blasi einfaldlega við.

„Stærri fyrirtækin hafa meiri sveigjanleika og möguleika á að ná í skip sem eru hagstæðari í rekstri, fækka þeim og sameina aflaheimildir á skip. Minni fyrirtækin og einyrkjar hafa ekki þann möguleika þegar afkoman versnar og fjárfestingargetan til endurnýjunar er tekin af þeim með aukinni skattheimtu,“ segir Gunnþór.

Vinnslum mun fækka

Að sögn Gunnþórs hefur samkeppnishæfnin í íslenskum sjávarútvegi minnkað vegna mikilla verðhækkana á mörgum kostnaðarliðum á sama tíma og krónan sé sterk. Margföldun á skattlagningu muni aðeins skerða samkeppnishæfnina enn frekar.

Gunnþór tekur fram að fiskurinn verði áfram veiddur. „Hann verður væntanlega veiddur af færri skipum. Við vitum líka að það er mikið af vinnslum í landinu sem eru vannýttar, hvort sem kemur að fiskimjölsverksmiðjunum, uppsjávarvinnslunum eða bolfiskvinnslunum. Ég sé alveg fyrir mér að þar gætu menn náð samstarfi um færri og stærri vinnslur og náð innbyrðis árangri þar. Það þýðir einfaldlega að vinnslum mun fækka. Samkeppnishæfni okkar verður með þeim hætti að erfiðara verður að keppa við erlendar vinnslur, sem gæti komið fram í auknum útflutningi þegar hagstæðara verður að flytja fiskinn út en að vinna hér á landi.“

Spurður hvort þetta þýði að í einhverjum sjávarplássum verði vinnslum lokað segir Gunnþór að menn verða að leita leiða til þess að mæta hinni nýju stöðu.

Þarf að smíða skip

„Það má ekki gleyma því að staða fyrirtækjanna er misjöfn. Stór hluti eiginfjár er bundinn í aflaheimildum; við borgum ekki af lánum eða fjárfestum í greininni fyrir aflaheimildir,“ segir Gunnþór. Hagræða þurfi til að standa undir aukinni skattheimtu og halda áfram að þróa fjárfestingu og verðmætasköpun í sjávarútvegi. Þetta geti því haft veruleg áhrif á einstök svæði.

„Það er mikil fjárfestingarþörf fram undan. Við þurfum að fjárfesta í nýjum skipum, ég tel að við Íslendingar ættum  að vera með nokkur skip í smíðum á hverju ári.  Við þurfum að fjárfesta í markaðsstarfi og orkuskiptum, auk þess að geta verið með nýjustu tækni í veiðum og vinnslu hverju sinni,“ segir Gunnþór, sem tekur fram að ekki liggi fyrir svör við öllum spurningunum á þessu stigi.

„Hvert og eitt fyrirtæki er með sitt rekstrarmódel og nálgast þetta með sínum hætti en ef greinin á að getað haldið áfram að fjárfesta, þróast áfram og halda sinni stöðu í alþjóðlegri samkeppni mun þurfa að grípa til aðgerða eins og þessara,“ segir Gunnþór.

Lagt upp í óvissuferð

Að sögn Gunnþórs telur hann alla hafa reiknað með að tekið yrði tillit til þeirra ábendinga og greininga sem komu eftir að veiðigjaldafrumvarpið kom fram í vor, enda hafi miklir gallar vankantar verið á vinnslu frumvarpsins.

„Þegar er verið að skattleggja upp í 70-80 prósent af hagnaði fyrirtækja og hagnaður sumra þeirra er nánast þurrkaður út held ég að það hafi ekki mörgum dottið í hug að menn létu það standa óáreitt. En því miður var ekki vilji til að hlusta á það sem  fram kom í öllum þeim varnaðarorðum og álitsgerðum sem gerðar voru. Í mínum huga er verið að fara með sjávarútveginn í mjög sérstaka óvissuferð með samþykkt þessa frumvarps; óvissuferð sem getur haft áhrif á þjóðarhag til lengri tíma litið. Það þarf að bregðast við,“ segir Gunnþór.

Ljóst að það bíti

„Við teljum að þeir fjármunir sem fara í veiðigjöld veiki greinina séu miklu betur komnir hjá fyrirtækjunum sjálfum. Íslenskur sjávarútvegur hefur verið öflugur og það er mun farsælla að í stað þess að veikja greinina með þessum hætti, værum við að sameinast um að efla fjárfestingu, verðmætasköpun og samkeppnishæfni okkar. Þannig hefðum við viljað auka skattspor greinarinnar til framtíðar, sem eru mikið nú þegar.“

Varðandi Síldarvinnsluna sem Gunnþór stýrir segir hann það liggja fyrir að hún og Brim séu stærstu fyrirtækin þegar komi að aflaheimildum. „Þessi fyrirtæki eru að fá á sig langmestu hækkunina. Hjá okkur er þetta hækkun upp á 1.400 til 1.600 milljónir á ári þannig að veiðigjöld fyrirtækisins eru að nálgast þrjá milljarða á ári og það er alveg ljóst að það mun bíta.“