Markmið með þorskmerkingum í stofnmælingu hrygningarþorsks með þorskanetum, sé að afla frekari upplýsinga um göngur þorsks, blöndun hrygningarþorsks á fæðusvæðum og tryggð við hrygningarsvæði.
Þorskmerkingar voru framkvæmdar einn dag á fjórum rannsóknasvæðum árið 2020 og fimm árið 2021. Stefnt var að því að merkja þúsund þorska á hverju svæði. Net voru lögð á svæðum þar sem fyrir fram mátti búast við því að fá töluvert af þorski. Aðferð merkinganna voru í stórum dráttum sú að net voru dregin varlega um borð, sprækir þorskar úr öllum stærðarflokkum voru teknir úr netinu og settir í sjó í kari um borð. Lífvænlegir þorskar voru teknir úr körunum, lengdarmældir, tvímerktir með tveimur slöngumerkjum og sleppt aftur í hafið. Alls voru merktir 2.492 þorskar í apríl 2020 en 4.135 í apríl 2021.
Merktir þorskar árið 2021 voru langflestir á bilinu 70‐110 sentímetrar að lengd. Í Breiðafirði voru merktir nokkrir þorskar um 50 sentímetra og minni.
Þetta kemur fram í nýlegri netarallsskýrslu Hafrannsóknastofnunar.
156 endurheimtir
Netarallið fer fram við hámark hrygningartíma þorsks í apríl og hentar vel til að merkja hrygningarþorsk því þá má segja að þorskar séu á sínum heimasvæðum, að sögn Jóns Sólmundssonar, fiskifræðings á Botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar.
„Þorskurinn hrygnir frekar grunnt og þorskur sem veiðist í net á hrygningartíma er oft vel lifandi og þolir vel að vera tekinn um borð í báta og merktur. Netarallið fer líka fram á öllum helstu hrygningarsvæðum þorsksins sem gerir okkur kleift að gera samanburð á göngum mismunandi stofneininga þorsksins.“
Búið er að endurheimta 16‐65 þorska frá hverju svæði, eða alls 156 þorska, úr merkingunum í apríl 2020. Frá hverju svæði hefur svipað hlutfall þorska verið endurheimt en hlutfall endurheimtu er á milli 6,6‐7,5 prósent.
- Þorskar sem bíða merkinga með s.k. pop-up merki – tilraun sem gerð var um borð í Árna Friðrikssyni. Pop-up merki koma til greina við merkingar á þorski á næstu árum. Mynd/Hafrannsóknastofnun
Almennt voru fleiri þorskar endurheimtir á fæðutíma, á tímabilinu frá júní‐febrúar. Þorskar sem voru merktir í Breiðafirði endurheimtust flestir í Breiðafirði, út af Vestfjörðum og fyrir norðan landið. Þrír þorskar merktir í Breiðafirði endurheimtust við Suðvesturland og einn fyrir austan land.
Þorskar sem voru merktir við Reykjanes endurheimtust flestir í kringum Reykjanesið en sex þeirra endurheimtust út af Vestfjörðum og fyrir norðan land. Þorskar sem voru merktir við suðaustur ströndina endurheimtust flestir fyrir austan land en tveir endurheimtust fyrir vestan og tveir fyrir norðan. Þorskar sem voru merktir út af Þorlákshöfn fóru vestur með landinu og flestir endurheimtust í Faxaflóa, Breiðafirði og út af Vestfjörðum en þrír þorskar endurheimtust á svæðinu frá Eyjafirði að Þistilfirði.
Byrjað 2019
Í þessu samhengi má nefna að Hafrannsóknastofnun hóf merkingar á þorski á ný í mars árið 2019, og þá eftir nokkurt hlé. Merktir voru 1.800 þorskar um borð í r/s Árna Friðrikssyni og r/s Bjarna Sæmundssyni þegar skipin voru í árlegu marsralli. Þá voru samhliða stofnmælingunni í ár merktir 840 þorskar á Kolbeinseyjarhrygg. Þorskar voru merktir með tveimur slöngumerkjum og er um framhald merkinga sem hófust í mars 2019 að ræða.
Eins hefur þorskur verið merktur inni á fjörðum fyrir vestan; í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Þá er einblínt á merkingar á ungþorski til að meta hversu lengi hann dvelst inn í fjörðunum.
Merkingar Hafrannsóknastofnunar á þorski frá 2019 hafa verið nokkurs konar hliðarverkefni í öðrum rannsóknum, t.d. stofnmælingaleiðöngrum.
„Við myndum gjarnan vilja sinna rannsóknum á göngum þorsksins betur og það er mjög mikilvægt að á næstu árum verði haldið áfram merkingum með rafeindamerkjum, ekki síst ef göngur þorsksins eru að breytast að einhverju leyti. Slíkar rannsóknir hafa verið í okkar áætlunum en fjármagn hefur vantað,“ segir Jón.
Endurheimtur utan Íslandsmiða sjaldgæfar
Þorskur sem merktur hefur verið við Ísland hefur sjaldan veiðst fyrir utan íslenska lögsögu. Þorskur merktur við Grænland hefur hins vegar veiðst við Ísland en í mismiklum mæli eftir árum.
Eins og Fiskifréttir hafa ítarlega greint frá er íslenskur þorskur tekinn að veiðast í tilraunaveiðum Norðmanna við Jan Mayen. Því taldi Hafrannsóknastofnun nauðsynlegt að merkingar séu stundaðar reglulega þannig að hægt sé að fylgjast stöðugt með því hvort breytingar verði á fari þorsks við Ísland.
- Forsenda merkinga á þorski er samvinna við sjómenn um að skila inn merkjum. Hafrannsóknastofnun treystir því á liðsinni þeirra. Mynd/Hafrannsóknastofnun
Fyrstu merkingar á þorski við Ísland voru gerðar árið 1904 og frá þeim tíma hefur þorskur verið merktur reglulega.
„Frá árinu 2010 hefur hins vegar mjög lítið af þorski verið merkt á Íslandsmiðum. Merkingar veita mikilvægar upplýsingar um far fiska. Þannig hafa merkingar á þorski sem gerðar voru á 40 ára tímabili (1948 til 1996) gefið vísbendingar um hvernig kynþroska fiskur dvelur um hríð á hrygningarslóð og leggur að hrygningu lokinni af stað í ætisgöngur norður á bóginn. Þó fyrri rannsóknir hafi gefið mikilvægar upplýsingar um far, þá hafa umhverfisbreytingar í hafinu við Ísland undanfarin ár haft áhrif á útbreiðslu ýmissa sjávartegunda við landið. Því er mikilvægt að varpa á nýjan leik ljósi á far þorsksins við þessar breyttu aðstæður,“ segir á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.