Fyrr í sumar var gengið frá samningi milli útgerðarfélagsins Gjögurs hf. og Hampiðjunnar um kaup félagsins á 1600 metra Gloríumakrílflottrolli fyrir fjölveiðiskip útgerðarinnar, Hákon EA 148. Þetta væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema vegna þess að um er að ræða þúsundasta Gloríuflottrollið sem framleitt hefur verið hjá trolldeild Hampiðjunnar hérlendis.

Þessar upplýsingar koma fram á heimasíðu Hampiðjunnar. Hákon EA hefur verið á makrílveiðum í sumar og er tíðindamaður heimasíðunnar ræddi við Björgvin Birgisson, sem er skipstjóri á móti Guðjóni Jóhannssyni, var skipið í vari við Rif og frysting á makríl í fullum gangi.

,,Við höfum verið að veiðum í Kolluálnum vestur af Snæfellsnesi en það gerði haugabrælu í nótt og því var ákveðið að leita vars. Gærdagurinn var reyndar mjög góður. Við fengum rúmlega 300 tonn af makríl í tveimur holum og það þarf tíma til að vinna það magn. Makrílinn er hausaður og heilfrystur um borð og afkastagetan í frystingunni er um 80 til 90 tonn á sólarhring,“ segir Björgvin en hann upplýsir að reynslan af nýja Gloríuflottrollinu sé mjög góð.

,,Þetta er fyrsta sérhannaða uppsjávartrollið sem við notum en við erum einnig með stærra flottroll um borð. Það hefur þó aldrei virkað mjög vel á makrílveiðum. Við höfum notað nýja flottrollið frá því að vertíðin hófst í byrjun júlí. Byrjunin var reyndar ekki góð því við rifum belginn fljótlega en eftir það hefur allt gengið eins og í sögu og veiðin hefur verið góð,“ segir Björgvin Birgisson.

Sjá nánar á heimasíðu Hampiðjunnar .