Stofnanir Evrópusambandsins hafa náð samkomulagi um úthlutunarreglur vegna styrkveitinga til sjávarútvegsins í ESB-ríkjunum  en þær nema 6,7 milljörðum evra eða  jafnvirði rúmlega eitt þúsund milljarða íslenskra króna.

Yfirlýst markmið styrkjanna er að stuðla að ábyrgari fiskveiðum og uppbyggingu fiskistofna. Meðal nýju reglnanna eru ákvæði um fjárstuðning við kaup á nýjum vélum í skip og báta. Ef endurnýja á vél í bát undir 12 metrum á lengd má vélin vera jafnstór og sú fyrri. Ef báturinn er 12-18 metra þarf vélin að vera 20% aflminni eigi hún að fá styrk. Skip yfir 18 metrum að lengd fá ekki fjárhagsaðstoð nema vélin sé 30% aflminni en sú eldri.

Nú er ekki lengur veittur neinn styrkur vegna smíði nýrra skipa. Í staðinn eru veittir styrkir til ungra fiskimanna og til þjálfunar vegna sjálfbærra fiskveiða sem eru nauðsynlegar sjávarbyggðum, eins og það er orðað.

Þá er veitt auknu fé til upplýsingasöfnunar og eftirlits sem getur styrkt stjórnvöld í baráttunni gegn ólöglegum veiðum en þær eru sagðar nema 40% af lönduðum afla.

Frá þessu er skýrt á sjávarútvegsvefnum FISHupdate.com