„Við erum nú meira en hálfnuð í niðurtalningunni að Brexit,“ segir í grein sex vísindamenn við breska háskóla birtu, þar sem þeir fjalla um stöðu sjávarútvegsmála í útgönguferlinu. „Engu að síður blasir enn við ótrúlega erfitt verkefni framundan við að útfæra stjórnfyrirkomulag í sjávarútvegi sem skilar af sér bæði sjálfbærni, réttlæti og efnir þau loforð sem kjósendum voru gefin í aðdraganda Brexit-kosninganna.“

Þeir hvetja stjórnvöld til þess að hafa góða samvinnu bæði við nágrannaríkin og ólíka hagsmunaaðila í greininni.

Greinin var birt á umræðuvef London School of Economics, en höfundarnir eru Richard Barns, Chris Williams, Bryce Beukers-Stewart, Bethan O‘Leary, Thomas Appleby og Griffin Carpenter.

Þeir segja mikla óvissu ríkja um það hvernig ná eigi fram árangursríkri stefnu í málefnum sjávarútvegs og umhverfi sjávar eftir útgönguna. „En það sem við vitum er að „árangur“ getur aðeins náðst með því að hafa samstarf við nágranna okkar í ESB, hlusta ekki aðeins á stóra hagsmunahópa heldur einnig á einstaklinga og fyrirtæki innan þeirra, og leggja áhersluna á ná fram sjálfbærri, réttlátri og samhæfðri stjórn sjávarútvegsmála.“

Enginn hægðarleikur
Meðal annars er vitnað í skýrslu frá síðasta ári um fiskveiðar, sjávarafurðir og umhverfi hafsins, sem Economic and Social Research Council sendi frá sér á nýliðnu ári. Þar bent á að það verði enginn hægðarleikur að búa til ný bresk lög um stjórn fiskveiða sem komi í staðin fyrir núgildandi Evrópulöggjöf.

„Megnið af breskri löggjöf um fiskveiðistjórnun kemur frá Evrópusambandinu. Ekki skyldi vanmeta það hve flókið verður að flytja þessa löggjöf inn í bresk lög og aðlaga hana að sama skapi. Talið er að þar komi við sögu meira en þúsund núgildandi lagabálkar er varða fiskveiðar. Myndin verður síðan enn flóknari þegar við þetta bætast umhverfislög tengd sjónum. Að skipta núgildandi fyrirkomulagi út fyrir samhæfða stefnu sem tekur á sjálfbærnimálum verður því tímafrekt, ef standa á vel að verki.“

Flökkustofnar
Einna erfiðast viðfangs verður, að mati höfunda, að greiða úr því aukna flækjustigi sem brotthvarf Bretlands úr Evrópusambandinu kemur á annars nógu flóknar viðræður ólíkra landa um flökkustofna. Þar kemur Ísland við sögu, meðal annars vegna makrílveiða.

Einnig er vitnað í rannsókn sem gerð var á vegum háskólans í York, þar sem afstaða ólíkra hagsmunaaðila í greininni var greind.

Samstaða um sjálfbærni
„Uppörvandi er að allir voru sammála um að sjálfbærni fiskveiða ætti að vera í aðalforgangi, en á hinn bóginn greindi hópa á um önnur atriði.“ Þannig lagði sjávarútvegurinn áherslu á að auka hlutdeild Breta í fiskveiðikvótum og takmarka aðgang annarra þjóða að efnahagslögsögu Bretlands, en fræðimenn og félagasamtök höfðu meiri áhuga á að vernda vistkerfi sjávar. Fiskvinnslan lagði aftur á móti mesta áherslu á að tryggja lága eða enga tolla ásamt því að tryggja stöðugt vinnuafl.

Höfundar greinarinnar leggja áherslu á að þau atriði, sem samstaða ríkir um, verði notuð til að efla samstarf ólíkra aðila í greininni. Almenn samstaða ríki nú þegar um þrjú meginatriði varðandi samningaviðræður við Evrópusambandið um framtíðarfyrirkomulag sjávarútvegs í Bretlandi.

Í fyrsta lagi virðast allir sammála um að afleiðingarnar yrðu slæmar fari svo að ekkert samkomulag takist. Í öðru lagi ríkir samstaða um að stjórna þurfi fiskveiðum þannig að litið sé á þær sem part af umhverfi hafsins. Loks sé mikilvægt að sjávarútvegsstefna Breta eftir Brexit tryggi sjálfbæra notkun auðlindarinnar.

„Allir tapa ef þetta gengur ekki eftir,“ segir í greininni.

[email protected]