Uppsjávarfyrirtækin sjö í Vestmannaeyjum eru talin hafa orðið tekjum upp á 7,6 milljarða vegna loðnubrestsins á árinu 2019. Tapaðar launatekjur urðu að minnsta kosti einn milljarður króna, tekjutap fyrirtækja nemur rúmum 8,5 milljörðum og Vestmannaeyjabær varð af rúmlega 160 milljörðum í töpuðu útsvari.
Þetta kemur fram í greiningu sem Hrafn Sævaldsson, nýsköpunar- og þróunarstjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja, gerði fyrir Vestmannaeyjabæ.
„Fyrirtæki í Eyjum tóku á sig mikinn skell við loðnubrestinn,“ segir í greiningunni. Að vísu urðu „ekki miklar uppsagnir og svo virðist sem að lítil breyting hafi orðið á atvinnuleysi.
Vinnutíminn virðist hins vegar hafa minnkað og sömuleiðis virðast laun hafa minnkað nokkuð: „Hagur launþega í Vestmannaeyjum umfram aðra launþega á landinu hefur verið minni ef litið er til fyrstu 9 mánaða ársins. Þetta staðfesta tölur um útsvar.“
Höfundur greiningarinnar segir óhætt að „fullyrða að það vanti a.m.k. 1 milljarð inn í hagkerfi Vestmannaeyja í formi launa. Laun starfsmanna uppsjávarfyrirtækjanna eru þar af 900 mkr. Launatekjurnar kvíslast um allt hagkerfið og veltur þar áfram með tilheyrandi margfeldisáhrifum innan Vestmannaeyja.“
Varnarleikir
Hann segir atvinnulíf í Eyjum reyndar hafa rétt nokkuð úr kútnum, að því er virðist, þegar leið á árið 2019. Þrátt fyrir skellinn var lítið um uppsagnir og atvinnuleysi hélst svipað.
Fram kemur að fyrirtækin virðast hafa fundið starfsfólki sínu önnur verkefni. Varnarleikur fyrirtækja hafi því ekki falist í uppsögnum eða sölu eigna.
„Mögulega hefur samfélagleg ábyrgð haft eitthvað um það að segja,“ segir í greiningunni. „Það verður þó ekki hjá því litið að það fækkaði um eitt uppsjávarskip og með því töpuðust störf. Óverulegar eignir voru settar á sölu.“
Engu að síður er staðan tæpari en áður og loðnubrestur annað árið í röð, eins og nú er allt útlit fyrir, yrði vafalaust afdrifaríkari.
„Margir aðilar úr atvinnulífinu töluðu um að fyrirtækin hefðu tekið höggið á sig árið 2019 en ef annar brestur verður á árinu 2020 þá muni það hafa alvarlegri afleiðingar en árið 2019.“
Einhæft atvinnulíf
„Í kjölfar loðnubrestsins varð samfélagið í Eyjum á margan hátt varnarlaust gagnvart neikvæðum áhrifum. Atvinnulífið er mjög einhæft, sjávarútvegurinn hefur verið allsráðandi frá upphafi byggðar í Eyjum,“ segir í greiningunni.
„Ef vel hefur gengið í sjávarútvegi hefur jafnframt verið almenn velmegun í samfélaginu í Eyjum. Þegar illa árar í sjávarútvegi koma áhrifin mjög hratt í fram í Eyjum sökum efnahagslegs mikilvægis sjávarútvegs, margfalt umfram aðrar atvinnugreinar og því koma bein og óbein áhrif mjög hratt fram, bæði á sjávarútveginn sjálfan sem og afleiður hans.“
Uppsjávarfyrirtækin hafa verið helstu máttarstólpar atvinnulífsins í Eyjum en samanlagðar tekjur þeirra voru 27 milljarðar króna árið 2018.
Í Vestmannaeyjum eru þrjú fyrirtæki sem byggja afkomu sína að stærstum hluta á veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski. Eitt þeirra, Huginn ehf., stundar einungis veiðar á uppsjávarfiski, en hin tvö, Vinnslustöðin og Ísfélagið, stunda einnig veiðar á bolfiski.
„Þessi þrjú fyrirtæki hafa ráðstöfunarrétt á öllum loðnukvótanum í Vestmannaeyjum. Fyrirtækin hafa ráðstöfunarrétt á 32,32% loðnukvóta Íslendinga.“
Samfélagið í Eyjum á því mikið undir loðnunni og engin furða þó allt kapp sé lagt á að tryggja þær tekjur áfram, sé þess nokkur kostur. Frá loðnunni kemur stór hluti tekna sjávarútvegsfyrirtækjanna og þaðan kemur einnig stór hluti tekna starfsmanna fyrirtækjanna. Ennfremur eru margfeldisáhrif launanna mikil.
„Það eru miklir fjármunir í húfi og samfélagið spilar með. Áhrifin koma fram í kaupum á vörum og þjónustu. Velflestir, ef ekki allir Eyjamenn þekkja einhverja sem fundu fyrir loðnubrestinum. Á lítilli eyju þar sem samkenndin er sterk eru áföll eins og loðnubrestur fljótt að hafa áhrif og kvíslast um flesta kima samfélagsins.“
Vilja loðnuleit fram í mars
„Verði ekki gefin út loðnukvóti annað árið í röð mun bæjarráð óska eftir fundi með sjávarútvegsráðherra, sveitarstjónaráðherra og fjármálaráðherra til að ræða mögulegar mótvægisaðgerðir við aflabresti,“ segir í fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja þriðjudaginn 4. febrúar.
Á fundi ráðsins þann dag kynnti Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri greinargerð Hrafn Sævaldssonar um áhrif loðnubrestsins.
Í fundargerðinni segir að verði loðnubrestur annað árið í röð hefði það ekki bara mikið tekjutap í för með sér fyrir samfélagið allt heldur séu miklar líkur á því að markaðir tapist.
„Það er lykilatriði að stjórnvöld beiti sér fyrir auknum rannsóknum á loðnu. Einnig vöktun og leit að loðnu næstu vikur til þess að hægt sé að mæla það magn af loðnu sem er við Ísland og vonandi gefa út kvóta í framhaldinu.“
Taka ekki annað svona högg
„Við höldum auðvitað ennþá í vonina,“ segir Íris Róbertsdóttir í samtali við Fiskifréttir. „Það sem við viljum fyrst og fremst fá frá ráðherra núna er að það verði leitað inn í mars, og þá erum við að horfa til hrognatímans.“
Krafan sé sú að menn geri allt til að vakta loðnuna og leitað að henni.
„Það sem við gerum núna er að upplýsa fólk um stöðuna og hversu alvarleg áhrif loðnubrestur hefur á bæði Vestmannaeyjar og önnur samfélög. Það eru fleiri sem byggja afkomu sína á loðnu en við. Svo hefur þetta líka afleiðingar fyrir ríkissjóð.“
Fari svo að loðnubrestur verði annað árið í röð þá vilja Vestmannaeyingar fá fleiri aðila að borðinu, og horfa þá til stjórnvalda.
„Við þurfum að setjast niður með ráðherrum og óska eftir því að þeir komi í þetta verkefni með okkur. Þau sveitarfélög sem eiga svona mikið undir taka ekki annað svona högg.“