Skýrsla Hafrannsóknastofnunar var birt á dögunum og þar kom meðal annars fram það álit að vegna hættu á erfðablöndun er lagt til að eldi verði ekki aukið í Berufirði og lagst gegn eldi í Stöðvarfirði vegna nálægðar við Breiðdalsá. Niðurstöður matsins eru að ásættanlegt sé að leyfa allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land. Þar af 50.000 tonn á Vestfjörðum og 21.000 tonn á Austfjörðum.
Ályktun vegna áhættumats Hafrannsóknastofnunar frá hendi sveitastjórnanna fer hér á eftir:
„Bæjarráð Fjarðabyggðar og sveitarstjórn Djúpavogshrepps hafa þungar áhyggjur af stöðu framtíðaruppbyggingar fiskeldis á Austfjörðum út frá þeim forsendum sem áhættumat Hafrannsóknarstofnunar byggir á. Eins og atvinnuuppbygging á suðurfjörðum Vestfjarða er til marks um, bendir flest til þess að fiskeldi feli í sér eitt helsta sóknarfæri jaðarbyggða í atvinnuþróun og samfélagslegri uppbyggingu.“
Eins segir að „í ljósi þess falast sveitarstjórnir Fjarðabyggðar og Djúpavogshrepps eindregið eftir fundi með ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og forsvarsmönnum Hafrannsóknarstofnunar við fyrsta tækifæri, svo fara megi yfir þau efnislegu rök sem standa til jafn umsvifamikillar skerðingar á fiskeldi á Austfjörðum og lagt er til í niðurstöðum áhættumatsins. Jafnframt er lögð áhersla á að stjórnvöld skjóti allri ákvarðanatöku á frest sem byggir með einhverju móti á áhættumatinu þar til ljóst er að forsendur matsins séu réttar.