Náttúruverndarsamtök Íslands (NÍ) og Aðgerðarhópur um loftslagsmál, París 1,5°, hafa formlega beint þeirri áskorun til Alþjóða siglingamálastofnunarinnar (IMO) að notkun svartolíu á skip sem sigla um norðurhöf verði bönnuð og teknar verði upp reglur á svæðinu sem leyfa einungis vistvænt eldsneyti.
Faxaflóahafnir leggja málinu lið og hafa sent erindi til Reykjavíkurborgar þar sem eftir fulltingi þeirra er leitað. Bæjarstjórnir Akraness, Hvalfjarðarsveitar og Borgarbyggðar, auk Earth 101, Fuglaverndar, Landverndar, Landssamtaka smábátaeigenda og Loftslag.is standa jafnframt að áskoruninni.
Í áskorun NÍ og París 1,5° er hvatt til fyrrnefnds banns og að teknar verði upp reglur um svonefnt ECA-svæði (Emission Controled Area) á grundvelli VI viðauka Marpol samningsins – alþjóðlegs samnings um mengun frá skipum. Þar er bent á að grípa þurfi strax til markvissra aðgerða til a draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna siglinga, einkum í norðurhöfum, eða norðan 60. breiddargráðu. Þar segir:
„Rannsóknir sýna að sýrustig sjávar eykst stöðugt vegna síaukinnar losunar koltvísýrings út í andrúmsloftið og norðlægum slóðum eykst súrnunin hraðar en í heitari sjó. Þessi þróun ógnar nú þegar vistkerfi hafsins og því ber öllum þeim sem spornað geta við þessari þróun að leggja sitt að mörkum. Til að ná þeim markmiðum sem aðildarríki Parísarsamkomulagsins settu sér, skorum við á IMO að setja skynsamlegar reglur um um siglingar í norðurhöfum í þágu umhverfisins,“ segir í áskoruninni.
Hætta á mengunarslysum
Það er óumdeilt að auknum siglingum um Norðurhöf fylgir aukin mengun og hætta á mengunarslysum. Í texta áskorunarinnar er á þetta minnt og að hafsvæðið norðan 60. breiddargráðu er afar viðkvæmt, en þar eru fiskistofnar undirstaða efnahags aðliggjandi landa. Það er því að mati NÍ og París 1,5° augljós skylda aðildarríkja IMO að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að draga úr hættu á mengun og þeim breytingum á lífríki sjávar sem hlýnun jarðar hefur í för með sér.
Gísli minnir á það í bréfi sínu til borgarráðs að stjórn Faxaflóahafna lýsti yfir stuðningi í maí í fyrra við að viðauki VI yrði lögfestur hérlendis en Ísland er aðili að samningnum. Eins að í framhaldi að þeirri samþykkt yrði efnahagslögsaga Íslands lýst ECA svæði og þannig gerðar strangari kröfur til eldsneytis skipa en gilda í dag. Hafnasamband Íslands ályktaði ennfremur í sama anda Hafnasambandsþingi í október sama ár.
Risavaxið hagsmunamál
Nú liggur fyrir, eins og kemur fram í nýrri þingsályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti, að íslensk stjórnvöld stefna á að lokið verði við innleiðingu alþjóðlegra reglugerða á íslensku hafsvæði og er Marpol samningurinn sérstaklega nefndur og innleiðing VI. viðaukans.
Innan umhverfisráðuneytisins og víðar hefur verið rætt að leggja bann við notkun á svartolíu innan efnahagslögsögunnar. Á þetta minnir Gísli í erindinu til borgarráðs og hvetur auk þess til að stærra skref verði tekið; að taka upp ECA reglur, en það mun þó krefjast undirbúnings.
Í bréfi sem Gísli skrifaði þáverandi umhverfisráðherra Sigrúnu Magnúsdóttur eftir að Faxaflóahafnir höfðu ályktað um málið í fyrra segir um hvað er að tefla.
„UM leið og hann [Marpol VI] hefur verið innleiddur er hægt að taka næsta skref, sem er að fá umhverfislögsögu Íslands (200 mílur) samþykkta sem ECA-svæði þar sem hæsta leyfilega magn brennisteins í eldsneyti er 0,1% (það sama og er leyfilegt í höfnum). Þetta þýðir að einungis megi nota skipagasolíu eða vistvænt eldsneyti á svæðinu,“ skrifar Gísli og áréttar að verið sé að vinna gegn súrnun sjávar og að efnaúrgangur frá óhreinum eldsneytisbruna fari í hafið – sem er risavaxið hagsmunamál fyrir Ísland, segir Gísli.
Erlendir fjölmiðlar endurspegla þessar áherslur IMO þessa dagana. Sagt er frá því, meðal annars í Guardian, að á hausti komanda verður sérstakur fundur er varðar notkun þessarar mengandi olíu, og verður á vettvangi sjávarumhverfisverndarnefndar IMO. Standa vonir þeirra bjartsýnustu til að búið verði að girða fyrir notkun þeirrar olíu sem mest mengar fyrir árið 2020.
Fréttamiðillinn Arctic Deeply greinir frá því að árið 2015 var fyrrnefnd svartolía brennd af nærri helmingi þeirra skipa sem fóru um það svæði sem IMO skilgreinir sem norðurslóðir.
Þess má geta að allt frá árinu 2011 hefur verið í gildi bann á vegum IMO um að brenna svartolíu á hafsvæðinu við Suðurheimskautið. Norðmenn bönnuðu auk þess notkun svartolíu við Svalbarða nýlega.
Fréttin birtist í nýjustu Fiskifréttum 27. júlí