Seint á síðasta ári hlaut íslenska fyrirtækið Fisheries Technologies styrk til innleiðslu á upplýsingakerfi fyrir fiskveiðar í Karíbahafinu

Styrkurinn kemur úr Samstarfssjóði atvinnulífs um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og byrjað verður á að innleiða kerfið fyrir tvö af 17 eyríkjum Karíbafhafs, Sankti Lúsíu og Dominiku.

Vilhjálmur Hallgrímsson segir að ef vel tekst til gæti svo farið að öll sautján ríki Karíbahafsins taki upp þetta kerfi.

Vilhjálmur er framkvæmdastjóri Fisheries Technologies, en hann og félagar hans hjá Fisheries Technologies unnu á sínum tíma að þróun á upplýsingakerfum fyrir íslenska fiskveiðistjórnun, svo sem fyrir Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun og Sjávarútvegsráðuneytið.

Útgáfa 2

„Við erum búnir að vinna að þróun íslenska upplýsingakerfisins frá upphafi þess árið 1992, og jafnvel fyrir þann tíma,“ segir hann.

Hann hefur orðað það þannig að nýja kerfið sem til stendur að innleiða í Karíbahafinu geti talist „útgáfa 2 af íslensku fiskveiðistjórnunarkerfi. Svona yrði þetta líklega hannað ef íslenska ríkið fengi tækifæri til að endurhanna sín kerfi frá grunni.“

Árið 2017 hlaut Vilhjálmur fyrstu verðlaun í samkeppninni Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2017 fyrir þróun á alhliða upplýsingakerfi fyrir fiskveiðistjórnun.

Þetta kerfi er því byggt á áratuga langri frjáfestingu og reynslu Íslendinga á þessu sviði, en að sögn Vilhjálms má segja að stjórnun fiskveiða á Íslandi fari fram í gegnum það kerfi sem varð til úr þeirri vinnu. „Úthlutun kvóta og löndun afla fer fram í þessu kerfi, og það er fylgst algerlega með löndun afla og nýtingastuðlum í gegnum þetta kerfi. Þetta er það sem veitir íslenskum yfirvöldum yfirsýn yfir hvernig fiskveiðarnar ganga.“

Miklir hagsmunir

Að mati Vilhjálms eru miklir hagsmunir í húfi, því öflugra fiskveiðistjórnunarkerfi geti stutt mjög við uppbyggingu atvinnulífs og verðmætasköpunar á sviði sjálfbærra fiskveiða og um leið unnið gegn fátækt og hungri.

Utanríkisráðið segir styrkinn til marks um að sífellt fleiri íslensk fyrirtæki nýti samstarfstækifæri í þróunarríkjum og stuðli með starfsemi sinni að hagsæld þar og grípi um leið ný tækifæri til uppbyggingar.

Næsti umsóknarfrestur er 3. maí, styrkfjárhæð getur numið allt að 200.000 evrum yfir allt að þriggja ára tímabil, þó getur hún ekki orðið hærri en helmingur af heildarkostnaði verkefnis. Fyrirtæki og samstarfsaðilar þess í þróunarlöndum þurfa því að leggja fram sama eða hærra framlag en styrkfjárhæðinni nemur, en það getur verið í formi vinnu eða ráðgjafar.