Varðskipið Þór er nú statt við eftirlit á úthafskarfamiðunum við 200 sjómílna mörk efnahagslögsögunnar á Reykjaneshrygg. Samkvæmt samningi Norður-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) máttu veiðarnar hefjast á miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 10. maí.
Í frétt á vef Gæslunnar segir að á svæðinu séu nú 27 veiðiskip, þar af 3 íslensk. Auk varðskipsins Þórs er á miðunum spænskt varðskip á vegum Evrópusambandsins. Varðskipsmenn af Þór fóru í eftirlit um borð í erlent veiðiskip í gær á fyrsta degi veiðanna. Á svæðinu er nú norðaustan stinningskaldi og leiðindasjólag.
Varðskipið Þór verður við eftirlit á svæðinu á næstunni.