Frystitogarinn Blængur NK kom til löndunar í Neskaupstað á miðvikudagskvöld með 830 tonna afla upp úr sjó. Var aðallega um ufsa og karfa að ræða að því er kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.

„Alls voru um borð í skipinu um 20.500 kassar af frystum fiski þegar í land var komið og er það nokkuð gott á 27 dögum. Verðmæti aflans er um 300 milljónir króna,“ segir á svn.is þar sem rætt er við Sigurð Hörð Kristjánsson skipstjóra.

„Við fengum gott af ufsa í byrjun túrsins og það var mikilvægt. Við veiddum helst á Vestfjarðamiðum, einkum á Halanum. Túrinn var síðan restaður í Skerjadýpinu. Þetta var í reyndinni ágætistúr eins og þeir hafa verið hjá Blængi að undanförnu. Skipið stoppar ekki lengi í landi enda eru á því tvær áhafnir. Farið verður út í kvöld,“ segir Sigurður Hörður á vef Síldarvinnslunnar.